Kvika banki og TM samþykktu loks formlega að hefja viðræður um sameiningu félaganna í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu. Sagt var frá yfirstandandi viðræðum þess efnis samkvæmt öruggum heimildum Markaðarins í sumar, en félögin þvertóku í kjölfarið fyrir að viðræður stæðu yfir.

Forsendur viðræðnanna eru sagðar byggjast á því að TM verði dótturfélag Kviku og að Lykill fjármögnun, núverandi dótturfélag TM, sameinist Kviku. Þá er gert ráð fyrir að hluthafar í TM eignist 55% hlut í sameinuðu félagi miðað við útgefna hluti félaganna í dag.

Viðræðurnar munu fara fram á næstu vikum, ásamt því sem gagnkvæmar áreiðanleikakannanir verða framkvæmdar. Þar sem bæði félög búa við viðvarandi upplýsingaskyldu sem útgefendur skráðra verðbréfa er ekki gert ráð fyrir að sú vinna taki langan tíma.

Sagt er raunhæft að mati stjórna félaganna að ná fram eins milljarðs króna kostnaðarsamlegð með sameiningu, án viðskipta- og einskiptiskostnaðar. Gert er ráð fyrir að stærsti hluti kostnaðarsamlegðar komi til vegna hagkvæmari fjármögnunar.