Yfirvöld í Nýja Sjálandi ætla að lækka eldsneytisskatta til að stemma stigu við síhækkandi bensínverði í kjölfar innrásar rússneskra stjórnvalda í Úkraínu og viðskiptaþvingana á hendur Rússum. Þetta kemur fram í grein hjá Bloomberg .

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að lækka vörugjöld á eldsneyti um 25 nýsjálensk sent á hvern lítra, og mun lækkunin gilda næstu þrjá mánuðina í hið minnsta. Jacine Ardern, forsætisráðherra Nýja Sjálands tilkynnti aðgerðirnar á blaðamannafundi í dag. Gjöld á díselbíla munu einnig lækka um sömu upphæð. Auk þess munu fargjöld með almenningssamgöngum helmingast frá og með 1. apríl.

Ardern sagði að yfirvöld gætu hvorki haft mikil áhrif á stríðið í Úkraínu né á sveiflur á eldsneytisverði, en að þau geti hins vegar dregið úr áhrifum þessa á landsmenn.

Sjá einnig: Bensínlítrinn yfir 300 krónur

Bensínverð í Nýja Sjálandi er nú komið upp í 3,2 nýsjálenska dali á lítrann. Það jafngildir 288 íslenskum krónum á lítra, miðað við gengi dagsins í dag. Þess má geta að bensínlítrinn á Íslandi er kominn yfir 300 krónur.

Áætlaður kostnaður aðgerðanna nemur 350 milljónum nýsjálenskra dala, eða sem jafngildir 31 milljörðum íslenskra króna. Grant Robertson, fjármálaráðherra, segir að aðgerðirnar muni ekki leiða til aukinnar lántöku. Ríkisstjórnin ætli frekar að forgangsraða útgjöldum til að eiga efni á skattalækkunum.