Stjórnarmaður í Faxaflóahöfnum, Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir að fyrirtækið hyggist selja Reykjavíkurborg landið undir Sævarhöfða 33, án þess að það færi í opið útboðsferli.

Segir Marta að þannig væri hægt að fá fram raunverulegt verðmæti landsins að því er segir í Fréttablaðinu , enda væri það heiðarlegasta og eðlilegasta aðferðafræðin við sölu á opinberum eignum. Í dag mun borgarráð taka afstöðu til samningsins um kaup á landinu við Faxaflóahafnir, en hann nemur um 1.050 milljónum króna.

„Það hefði að minnsta kosti átt að fá fasteignasala til að meta verðmæti landsins áður en til sölu þess kom og verið æskilegt að selja það á frjálsum markaði vegna þess að opið söluferli er eðlilegasta aðferðafræðin og sú heiðarlegasta þegar verið er að selja opinberar eignir,“ segir Marta.

„Allt væri þá uppi á borðum og borgin hefði þá átt jafnt á við aðra og getað boðið í landið á markaðsverði og stjórn Faxaflóahafna tekið upplýsta ákvörðun.“ Marta var annar af tveimur stjórnarmönnum í Faxaflóahöfnum sem sátu hjá þegar kaupsamingsdrögin voru kynnt stjórnarmönnunum en hún lagði fram gagnrýna bókun.

Segir hún borgina hafa þrýst á að fá landið keypt, enda eigi það að verða að hluti af stækkun Bryggjuhverfisins í Grafarvogi. Segir hún að ekki hafi verið gert neitt verðmat vegna væntanlegra uppfyllinga á svæðinu.

Stjórnarformaður Faxaflóahafna, Kristín Soffía Jónsdóttir borgarfulltrúi Samfylkingarinnar segir svarar gagnrýni Mörtu með þeim orðum að það væri meiriháttar stefnubreyting ef Faxaflóahafnir ætluðu ekki að selja hafnarland aftur til eigenda sinna.