Talið er að launakostnaður á framleidda einingu muni hækka um rúmlega 7% í ár og um 5,5% að meðaltali næstu tvö ár. Þetta er meðal þess sem kemur fram í Febrúarhefti Peningamála sem Seðlabankinn gaf út í morgun.

Peningastefnunefnd Seðlabankans hækkaði stýrivexti um 75 punkta í 2,75% í morgun. Í Peningamálum segir að búist sé við 5,8% verðbólgu á fyrsta ársfjórðungi og 5,6% á öðrum ársfjórðungi. Þannig verði hún ekki komin niður fyrir 4% fyrr en á næsta ári.

„Verri verðbólgu horfur endurspegla meðal annars kröftugri efnahagsbata innanlands undir lok síðasta árs og þrálátari verðhækkanir á húsnæðismarkaði. Þá hefur alþjóðleg verðbólga verið meiri en gert var ráð fyrir, meðal annars vegna hækkunar olíu- og hrávöruverðs," segir í heftinu. Jafnframt segir að verðbólgan verði ekki komin nálægt markmiði fyrr en í lok spátímans, byrjun árs 2025.

Miklar launahækkanir samhliða litlum framleiðnivexti muni jafnframt leiða til hækkunar launakostnaðar á næstu misserum.

„Launavísitalan hækkaði um 7,5% milli ára á fjórða ársfjórðungi í fyrra. Útlit er fyrir að launahækkanir vegna hagvaxtarauka kjarasamninga verði meiri í ár en minni á næsta ári samanborið við nóvemberspá bankans. Horfur eru á litlum framleiðnivexti á spátímanum og að launakostnaður á framleidda einingu hækki því töluvert."