Samanlagt markaðsvirði þriggja íslenska fiskeldisfélaga í norsku kauphöllinni er um 130 milljarðar íslenskra króna. Félögin eru öll í meirihlutaeigu norskra fiskeldisframleiðenda og voru skráð á markað á síðustu fimmtán mánuðum. Arnarlax, stærsta félagið, er nú metið á um 65 milljarða króna, Ice Fish Farm á um 35 milljarða króna og Arctic Fish á um 31 milljarð króna. Þessi félög stefna öll á umtalsverðan vöxt á næstu árum.

Í greiningu sem Pareto vann í tengslum við skráningu Arctic Fish á markað fyrr á þessu ári var bent á að á síðasta ári hafi verið slátrað um 30 þúsund tonnum af eldisfiski en miðað við útgefin leyfi í kvíum megi áætla að sú tala kunni að hækka í um 70 þúsund tonn á ári.

Þá áætlar Pareto að miðað við umsóknir félaganna um framleiðsluvöxt megi búast við að framleiðslan nái allt að 120 þúsund tonnum á ári eftir árið 2025. Ice Fish Farm, móðurfélag Fiskeldis Austfjarða, var skráð á markað í júní á síðasta ári að undangengnu um 4,4 milljóna íslenskra króna útboði. Markaðsvirði félagsins fyrir útboðið var áætlað um 1,5 milljarðar norska króna eða um 21 milljarður íslenskra króna. Gengi bréfa í útboðinu var um 33,5 norskar krónur á hlut.

Gengi bréf félagsins hækkaði hins vegar töluvert í kjölfar skráningarinnar og stóð í ríflega 44 krónum á hlut um síðustu áramót. Norska félagið NTS ASA átti meirihluta í félaginu fram í nóvember á síðasta ári þegar annað norskt félag, Måsøval Eiendom keypti hlutinn.

Á móti fór meðal annars eignarhlutur í Norway Royal Salmon, sem er aðaleigandi Arctic Fish. Kaupin voru samþykkt af Samkeppniseftirlitinu í lok júní.

Måsøval átti fyrir meirihluta í félaginu Laxar fiskeldi sem einnig er með starfsemi á Austurlandi. Eftir að samþykki Samkeppniseftirlitsins lá fyrir var tilkynnt að Laxar og Fiskeldi Austfjarða væru með frekara samstarf til skoðunar enda á sami aðili meirihluta í báðum félögum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .