Stefanía Ólafsdóttir er framkvæmdastjóri og einn af stofnendum íslenska nýsköpunarfyrirtækisins Avo. Hún er stærðfræðingur og heimspekingur að mennt. Eftir að hafa lokið námi hóf Stefanía störf hjá deCODE genetics þar sem hún þróaði hugbúnað og gagnagreiningartól.

„Þar kynntist ég því að framkvæma flóknar greiningar á risavöxnum gagnasöfnum, sem átti eftir að nýtast vel því að það var ein af ástæðum þess að mér bauðst að ganga til liðs við QuizUp. Ég var fyrsti gagnasérfræðingur fyrirtækisins og stýrði uppbyggingu greiningarsviðs þess. Á þessum tíma bjó ég erlendis og var að vinna að mastersverkefni í samstarfi við deCODE og Evrópusambandið, og var komin með nokkur tilboð inn í doktorsnám. Ég ákvað hins vegar að leyfa því að sitja á hakanum og fannst spennandi tækifæri að byggja upp greiningarsviðið hjá nýsköpunarfyrirtæki á hraðri uppleið. Þetta var ótrúlega fjölbreytt starf sem fól í sér bæði krefjandi tæknilegar og samskiptalegar áskoranir - sem urðu í raun síðar grunnur hugmyndarinnar að Avo," segir Stefanía.

Viðhalda hraða án þess að fórna áreiðanleika

Hvað gerir Avo?

„Avo tryggir að gögnin sem vöruteymi safna til að skilja notendur sínar séu áreiðanleg. Stafræn vöruþróun krefst þess í dag að teymi hreyfist á leifturhraða. En ekki í hvaða átt sem er, heldur í rétta átt. Þau vöruteymi sigra sem nýta sér kraft gagna til að búa til bestu upplifunina fyrir notendur.

Við í Avo erum teymi af gagnasérfræðingum og forriturum sem erum búin að vinna saman í sex ár.  Þegar við unnum saman að QuizUp, leik með 100 milljónir notenda, lærðum við að við þurftum að skilja notendur gríðarlega vel til að halda samkeppnishæfi. Við þetta kynntumst við á eigin skinni að það er gríðarlega flókið að tryggja áreiðanleg gögn til að skilja notendur. Við vorum stöðugt að velja á milli þess annars vegar að koma vörunni hratt út, og hins vegar að seinka útgáfu til þess að tryggja að við værum að safna þeim gögnum sem við þurftum til að skilja hversu vel útgáfan gengi.

Í QuizUp tókst okkur á endanum að leysa þetta að stórum hluta, með tólum sem gagnateymið og forritarateymin smíðuðu til að sjálfvirknivæða stóran hluta ferlisins. Það skilaði sér í að við gáfum vöruna hraðar út, án þess að fórna áreiðanleika í mælingum. Og nú -  þegar við spólum áfram um nokkur ár - höfum við gefið út Avo, til að leysa þetta fyrir fyrirtæki í sömu sporum. Við hjálpum frábærum vöruþróunarteymum eins og TripAdvisor, Patreon og Sotheby's að viðhalda hraða vöruþróunar, án þess að fórna áreiðanleika gagna."

Af hverju skiptir þetta máli?

„Mikilvægi áreiðanlegra gagna mun aðeins aukast á komandi misserum, og þau fyrirtæki sem nýta sér kraft gagna munu sigra. En það er tæknilega flókið í útfærslu að smíða heildstæða mynd af notendaupplifun með gögnum. Það krefst þess að við skráum gagnapunkt í gagnagrunn fyrir hverja einustu mikilvægu athöfn notandans. Vöruþróunarforritarar nútímans þurfa ekki lengur einungis að skrifa frábæran kóða til að koma vöru í hendurnar á notendum, heldur þurfa þeir einnig að skrifa kóða sem skráir hverja einustu mikilvægu athöfn notandans inn í gagnagrunn.

Tólin og samskiptin í kringum þetta ferli eru mölbrotin í dag og þau hægja gríðarlega á útgáfuferli í vöruþróun. Ég talaði nýlega við leiðtoga Android teymisins hjá Skip scooters, sem er einn af viðskiptavinum Avo og er ein af stærri rafmagnshlaupahjólaleigum Bandaríkjanna, eins og Hopp er hér á landi. Hann sagði mér að vinna sem tók teymið hans áður 1-2 vikur, tekur aldrei meira en einn dag með Avo. Það sem voru áður óskilvirk og sundurlaus samskipti á milli iOS forritara, Android forritara, gagnateymisins, vörustjóra og gæðastjóra - og endaði í brothættri útfærslu gagna - er nú komið á einn stað með sjálfvirkri gæðastjórn. Og þetta er bestun sem á sér stað í hvert skipti sem svona vöruteymi gefur út uppfærslu - sem er yfirleitt á viku eða tveggja vikna fresti. Svona frásögn veitir okkur auðvitað þvílíkan kraft til þess að halda áfram að koma Avo í hendurnar á öllum þeim sem eru að reyna að vera samkeppnishæf með stafræna vöru fyrir marga notendur."

Nánar er rætt við Stefaníu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .