Vísitala leiguverðs hækkaði um 1,1% milli mánaða í janúar, og 12 mánaða hækkun fór úr 4,0% í 5,8%, og hefur nú ekki hækkað hraðar yfir 12 mánaða tímabil síðan sumarið 2019. Þetta kemur fram í janúarmælingu Þjóðskrár .

12 mánaða hækkun leiguverðs að raunvirði er þar með skriðin rétt yfir núllið í fyrsta sinn frá upphafi heimsfaraldursins, og mælist nú 0,08%. Raunverðið er þó enn 5,9% undir sögulegu hámarki sínu í janúar 2020.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá á dögunum eru teikn á lofti um að leiguverð taki að hækka á næstunni.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri lýsti því í kjölfar stýrivaxtahækkunar Seðlabankans í síðustu viku að hann hefði minni áhyggjur af stöðu húsnæðiseigenda heldur en fólks sem væri ekki komið inn á fasteingamarkaðinn. Nú þegar vextir hækki aukist hættan á að færri hafi möguleika á að kaupa fasteign og því muni fleiri leita á leigumarkaðinn með tilheyrandi eftirspurnaráhrifum.