Leigubílafyrirtækið Lyft tapaði einum milljarði Bandaríkjadala, jafnvirði 125 milljörðum króna, á liðnu ári. Félagið tapaði 1,8 milljörðum dala árið undan. Tekjur félagsins árinu námu 3,2 milljörðum dala sem er 36% aukning milli ára.

Tekjur Lyft námu 970 milljónum dala á fjórða ársfjórðungi og jukust um 70% á milli ára. Félagið tapaði hins vegar tæpum 260 milljónum dala á fjórðungnum. EBITDA félagsins nam tæpum 75 milljónum dala á fjórðungnum.

Í frétt hjá Wall Street Journal segir að lengri bílferðir og hærri fargjöld hefði vegið á móti færri leigubílaferðum milli ára, en mikill skortur á bílstjórum á árinu leiddi til hærri fargjalda. Jafnframt hafi ferðir á flugvelli tvöfaldast milli ára. Fyrirtækið áætlar að tekjurnar verði allt að 850 milljónir dala á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Það yrði 40% aukning frá sama ársfjórðungi árið 2021.

Forseti félagsins, John Zimmer, sagði að faraldurinn hefði hvatt félagið til að verða skilvirkara og hagræða í rekstri, en félagið hefur til að mynda hætt kostnaðarsamri þróun á sjálfkeyrandi leigubílum.

Gengi bréfa félagsins hefur hækkað um tæp 20% á síðustu fimm dögum og stendur í tæpum 44 dölum á hlut.