Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir mikilvægt á þeim tímamótum sem útganga Bretlands úr Evrópusambandinu markar, að líta á stóru myndina og tryggja áframhaldandi samstarf og samstöðu Evrópuþjóða.

„Þau gildi sem okkur Evrópubúum finnst vera sjálfsögð eiga undir högg að sækja, og það er afskaplega mikilvægt að þau lönd sem deila þessum gildum vinni eins þétt og náið saman og mögulegt er. Bretland þarf á Evrópu að halda og Evrópa á Bretlandi. Það verður að vinna saman á miklu fleiri sviðum en bara viðskiptum.“

Sjá einnig: Eygir frjálsari viðskipti eftir Brexit

„Ef menn ætla að sýna staðfestu gagnvart þeim ríkjum sem ekki hafa þessi gildi og fara fram með aðrar hugmyndir en við, þá er það ekki gert öðruvísi en með samstöðunni. Það hafa ekki verið nein vandamál milli EFTA-ríkjanna og ESB í þeim efnum, og ætti þar af leiðandi ekki að vera neitt vandamál fyrir Bretland að starfa áfram náið með öðrum Evrópuríkjum.

Ég treysti því að við verðum með leiðtoga í þessum löndum sem beri gæfu til þess að vinna áfram þétt saman þó svo að Bretar hafi tekið ákvörðun um að vera ekki aðilar að þessu tollabandalagi. Það er lykilatriði að svo verði.“

Fiskur og lamb stærstu útflutningsvörurnar
Guðlaugur segir sjávarútveg vega hvað þyngst í viðskiptum Íslands við Bretland. „Ef þú ætlar að alhæfa um Breta þá alla jafna borða þeir fisk sem aðrir veiða, en flytja út fisk sem er í eigin lögsögu,“ segir hann og nefnir sem dæmi breska þjóðarréttinn „fish-n-chips“, sem sé að stórum hluta íslenskur þorskur. Þá megi nefna lambakjöt sérstaklega, en Bretland sé stærsti útflutningsmarkaður Íslands fyrir það.

Nánar er rætt við Guðlaug í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .