Úrvalsvísitalan stóð í stað í 6,3 milljarða króna veltu er hlutabréf níu félaga á aðalmarkaði Kauphallarinnar hækkuðu og gengi átta félaga lækkaði.

Hlutabréfaverð Marels féll um 0,6% í 1,1 milljarðs króna viðskiptum og stendur nú í 646 krónum á hlut og hefur ekki verið lægra síðan í maí 2020. Gengi félagsins hefur nú fallið um þriðjung frá því að það náði hæstu hæðum í 973 krónum í lok ágúst síðastliðnum.

Hagar lækkuðu mest af félögum Kauphallarinnar í dag eða um 2,4% í 200 milljóna veltu. Gengi smásölufyrirtækisins stendur í 70 krónum og hefur fallið um 16% frá því að það fór hæst í 83 krónur þann 28. apríl síðastliðinn. Gengi félagsins hefur engu að síður hækkað um 3,7% frá áramótum.

Mesta veltan var með hlutabréf Kviku banka sem hækkuðu um 2% í 1,5 milljarða veltu og standa nú í 20,4 krónum á hlut. Hlutabréf bankans höfðu lækkað nokkuð að undanförnu og er gengi hans um 24% lægra en í upphafi árs.

Icelandair hækkaði mest allra félaga á aðalmarkaðnum eða um 2,6% en þó í aðeins 68 milljóna veltu. Gengi flugfélagsins stendur nú í 1,77 krónum á hlut.