Faraldurinn gengur yfir. Þetta er tímabundið ástand,“ ítrekaði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri í lok blaðamannafundar í miðvikudag um stöðu efnahagsmála í kjölfar útbreiðslu kórónuveirunnar. Þetta ítrekaði Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans. „Þótt efnahagshorfur séu að versna verulega og séu dökkar megum við ekki missa alla von. Þjóðarbúskapurinn mun ná sér aftur á strik þegar þessi óáran gengur yfir. Allar þessar sviðsmyndir sem við erum að skoða gera ráð fyrir því að hagvöxtur muni verða ágætur aftur strax á næsta ári,“ sagði Þórarinn.

Á flesta mælikvarða er hagkerfið mun betur í stakk búið til að takast á við samdrátt en í kreppunni fyrir rúmum áratug. Þá fór saman allt í senn bankakreppa, gjaldeyriskreppa, hrun eftirspurnar og flótti fjármagns úr landi svo úr varð að sett voru á gjaldeyrishöft. Brennt barn forðast eldinn og Íslendingar nýttu ágóða af uppsveiflu síðasta áratugar að miklu leyti til að greiða niður skuldir.  Sem hlutfall af landsframleiðslu voru samanlagðar skuldir fyrir-tækja, heimila og ríkisins  um 150% lægri í árslok 2019 en um mitt ár 2008. Skuldir heimila voru 122% af landsframleiðslu um mitt ár 2008, en 76% í árslok 2019. Skuldir fyrirtækja voru 202%  af landsframleiðslu sumarið 2008 en 87% í dag.

© vb.is (vb.is)

Þá eru skuldir ríkisins á svipuðum slóðum og árið 2008. Þá hefur verið viðvarandi viðskiptaafgangur undanfarin ár svo Íslendingar eiga nú mun meira fé erlendis en þeir skulda. Það er í fyrsta sinn frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar. Bankakerfið stendur mun betur en það sem féll í október árið 2008.

Bókfært eiginfjárhlutfall viðskiptabankanna þriggja um mitt ár 2008 var 11% en 24% um síðustu áramót. Í Rannsóknarskýrslu Alþingis er bent á að þegar dregið væri frá það hlutafé sem bankarnir fjármögnuðu sjálfir kaup á, í sjálfum sér, hafi eiginfjárhlutfall þeirra verið um 8% sem var þá lögbundið lágmarks eiginfjárhlutfall banka.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .