Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í vikunni málsástæðum Arev verðbréfafyrirtækis hf., Jóns Scheving Thorsteinssonar og Sjóvá um að meint 532 milljón króna bótakrafa Arev NII slhf., sem er í eigu lífeyrissjóða, væri fyrnd.

Arev NII telur að maðkur hafi verið í mysunni við ráðgjöf Arev og Jóns við kaup á bresku fataversluninni Duchamp. Málinu var stefnt inn í desember 2019 og töldu stefndu að krafan hefði fyrnst, þar sem Arev NII hefði mátt vita af meintu tjóni haustið 2015.

Því hafnaði dómurinn og taldi að vitneskja um mögulegt tjón hefði ekki legið fyrir fyrr en á fyrri hluta árs 2016. Því væri möguleg krafa ekki fyrnd. Sakarefni málsins hafði verið skipt og þýðir niðurstaðan nú, verði niðurstaðan ekki önnur á æðri dómstigum, að fjallað verður um aðrar málsástæður í nýrri aðalmeðferð. Tímasetning hennar liggur ekki fyrir.