Meirihluti svarenda í könnun Maskínu, sem var framkvæmd um miðjan síðasta mánuð, sögðust hlynntir virkjunum. Af þeim fjórum virkjanakostum sem spurt var út í voru þátttakendur minnst hlynntir vindmyllum. Niðurstöður könnunarinnar má finna hér .
Yfir 70% af svarendum sögðust fremur hlynntir eða mjög hlynntir sjávarfalla- og jarðhitavirkjunum. Einungis 3,3% sögðust fremur andvígir eða mjög andvígir jarðhitavirkjunum og 4,1% sögðust andvígir sjávarfallavirkjunum. Um tveir þriðju af þátttakendum í könnuninni eru hlynntir vatnsaflsvirkjunum og 10,5% sögðust andvígir þessum virkjanakosti.
Óvinsælasti virkjanakosturinn var að setja upp vindmyllur en engu að síður var meirihluti hlynntur þeim, eða nánar tiltekið 58,8% svarenda. Um 16,7% þátttakenda voru andvígir vindmyllum en sjá má sundurliðað eftir aldri að þær eru óvinsælastar meðal elstu kynslóðarinnar.
Maskína bendir á að sammerkt er með öllum tegundum virkjana sem spurt var um að umtalsverður munur var á viðhorfi kynjanna og konur almennt andvígari þeim en karlar. Þá eru fólk á landsbyggðinni almennt hlynntari öllum tengdunum virkjana heldur en höfuðborgarbúar.
Könnun Maskínu fór fram dagana 17. til 23. mars 2022 og voru svarendur 1.109 talsins. Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Svör voru vegin samkvæmt mannfjöldatölum Hagstofunnar um kyn, aldur og búsetu, þannig að þau endurspegla þjóðina prýðilega.