Birgir Jónsson, forstjóri Play, segir að bókanir fram í tímann gefi skýr merki um að bókunarstaða félagsins sé að nálgast það sem búast mætti við í eðlilegu árferði. Viðskiptavinir flugfélagsins séu þegar farnir að bóka flug fyrir næsta sumar og eru jafnframt að bóka ferðir með skömmum fyrirvara. „Það er uppsöfnuð löngun í alþjóðleg ferðalög á markaðnum okkar og Play er vel tilbúið til að anna þessari eftirspurn,“ skrifar Birgir í ávarpi í ársskýrslu flugfélagsins.
Hann segir að hagstæðar aðstæður á alþjóðlega flugmarkaðnum hafi gert félaginu kleift að geirnegla kostnaðarspörun og rekstrarhagkvæmni til lengri tíma.
„Vegna hagstæðra leigukjara hafði Play svigrúm til að aðlaga áætlun sína og bjóða upp á sveigjanleg skilyrði í takt við sveiflukennda eftirspurn. Þetta hefur tryggt að neikvæð þróun af völdum Covid-19 hefur ekki sett langtímaáætlanir Play út af sporinu og við einblínum áfram á að byggja upp tengiflugsleiðakerfi yfir Atlantshafið á skilvirkan og öruggan máta.“
Sjá einnig: Play fjölgar sætum um borð
Birgir segir að Play sé nú á frábærum stað til að njóta góðs af vexti í fluggeiranum og ferðaþjónustu á næstu árum í kjölfar kórónuveirufaraldursins.