Árið sem er að líða var viðburðaríkt, og umfjöllunarefni Viðskiptablaðsins bæði mörg og misjöfn. Eftirfarandi eru fimm mest lesnu innlendu fréttir ársins 2021.

Vinsælasta frétt Viðskiptablaðsins árið 2021 er viðtalið við frumkvöðulinn Guðmund Rúnar Pétursson sem stofnaði á árinu fjártæknifyrirtækið Zero Two ehf. eftir að fyrirtækið hans Coins.ph í Filippseyjum var selt fyrir 10 milljarða króna árið 2019. Guðmundur Rúnar, sem var enn búsettur í Manila þegar viðtalið birtist í mars, sagðist stefna á að verja meiri tíma á Íslandi en hann festi kaup á bænum Hlíðarendakoti í Fljótshlíð á síðasta ári.

Það leit út fyrir að 60 ára sögu Litlu kaffistofunnar við Suðurlandsveg væri að ljúka þegar rekstraraðilar staðarins tilkynntu í byrjun sumars að til stæða að loka honum. Fjölskylda Hlöðvers Sigurðssonar, stofnanda Hlöllabáta, ákvað hins vegar að taka við rekstri Litlu kaffistofunnar og var staðurinn opnaður að nýju í ágúst.

Hlutafjárútboð og skráning Íslandsbanka í Kauphöllina var einn mest umtalaði atburður í íslensku atvinnulífi í sumar. Þó að almenn ánægja var með útboðið þá ríkti viss óánægja um söluverðið og úthlutunina. Dæmi voru um að stórir erlendir sjóðir seldu megnið eða öll bréf sín í bankanum strax í kjölfar skráningar bréfanna á markað.

4. Skildi fjórum dögum eftir kaupmála

Mótórhjólasali á Akureyri fékk lítið í sinn hlut í fjárskiptum vegna skilnaðar en Héraðsdómur Norðurlands eystra hafnaði að ógilda kaupmála sem hann og fyrrverandi eiginkona hans höfðu gert. Fjórum dögum eftir að kaupmálinn var undirritaður ákvað konan að láta staðar numið í sambandi aðila. Maðurinn taldi konuna hafa blekkt sig við gerð kaupmála.

5. Skýtur föstum skotum á Mandi

Birgir Örn Birgisson, fráfarandi forstjóri Domino's á Íslandi, lýsti áhyggjum sínum af háum launakostnaði í veitingageiranum á Íslandi og sagðist óttast að sligandi launakostnaður orsaki það að fleiri rekstraraðilar kjósi að greiða laun undir borðið. Nefndi hann dæmi um fyrirtæki, sem treystir meðal annars á nætursölu, sem greiddi 12 prósent af veltu í laun árið 2020 en Birgir sagði að almennt væri launahlutfallið 40 prósentum í geiranum. Umrætt 12% hlutfall stemmdi við ársreikning HALAL ehf., rekstraraðila Mandi.

Sjá einnig: Mest lesnu innlendu fréttir ársins: 6-10