Hagnaður Eimskips á síðasta ársfjórðungi 2021 nam um 13,7 milljónum evra, jafnvirði um 1,9 milljarða króna, samanborið við hagnað upp á 0,8 milljónir evra á sama tímabili árið á undan. Methagnaður var hjá samstæðu á árinu, nam rúmum 40 milljónum evra, jafnvirði um 5,7 milljarða króna. Hagnaður samstæðunnar nífaldaðist á milli ára, var tæplega 4,5 milljónir evra á árinu 2020. Þetta kemur fram í ársuppgjöri félagsins.

Tekjur námu 882,7 milljónum evra og hækkuðu um 214,4 milljónir evra eða 32,1% samanborið við árið 2020. Aðlagaður kostnaður nam 768,4 milljónum evra sem er hækkun um 161,8 milljónir evra milli ára eða 26,7% hækkun. Hækkunin skýrist að mestu af auknum umsvifum og verulegri hækkun kostnaðar tengdum flutningsbirgjum. Launakostnaður félagsins nam 122 milljónum evra á árinu, jafnvirði um 17 milljarða króna, og jókst um 9 milljónir evra á milli ára. Þar af jókst launakostnaðurinn um 4,1 milljónir evra á fjórða ársfjórðungi vegna aukinna umsvifa, almennra launahækkana og einskiptis jólagreiðslu til allra starfsmanna.

EBITDA jókst gríðarlega milli ára, og nam 114,3 milljónum evra á árinu samanborið við 61,7 milljónir evra fyrir árið 2020, sem er hækkun um 85%. Eigið fé félagsins nam rúmlega 261 milljónum evra í lok árs og var eiginfjárhlutfall þess 41,2%, rúmu prósentustigi hærra en 40% langtímamarkmið félagsins.

Samherji Holding er stærsti hluthafi Eimskips með 32,8% hlut og þá eiga lífeyrissjóðir samanlagt um 40% hlut í félaginu en þar af eru Gildi og Lífeyrissjóður verslunarmanna stærstu hluthafarnir með 11-12% hlut hvort um sig.

Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips, segir ríka áherslu vera lagða á sjálfbærni í rekstri félagsins. Haldið sé áfram að stíga skref í átt að notkun grænnar orku í rekstri m.a. með fjárfestingum í rafknúnum hafnarkrönum og umhverfisvænni gámalyfturum, flutningabílum og smærri bílum.

Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips:

„Ég er mjög ánægður með frammistöðuna á fjórða ársfjórðungi og árinu í heild en við skilum nú metafkomu. Framlag starfsmanna var framúrskarandi og okkur tókst að halda uppi háu þjónustustigi í mjög krefjandi rekstrarumhverfi.  Fjárhagslega héldum við áfram að byggja á samþættingu og hagræðingu síðustu ára, þeim aðlögunum sem gerðar hafa verið á rekstrinum  ásamt virkri tekjustýringu ásamt hagstæðu ytra umhverfi, sérstaklega á alþjóðaflutningsmörkuðum.“