Aldrei hafa fleiri kaupsamningar um sumarhús og lóðir verið undirritaðir og í fyrra samkvæmt gögnum Þjóðskrár. Alls voru þeir 603 talsins og hafa tvöfaldast frá 2019 þegar um 300 kaupsamningar voru undirritaðir.

Fjöldi seldra sumarhúsa jókst um 58% milli áranna 2019 og 2020 og 21% milli áranna 2020 og 2021. Á sama tíma var aukningin í fjölda seldra íbúða 17% milli 2019 og 2020 og 10% milli 2020 og 2021. Því má segja að lægri vextir hafi haft meiri áhrif á markað fyrir sumarhús samanborið við íbúðamarkað. Aukinn sparnaður og færri ferðalög til útlanda síðustu tvö árin hafa líklega ýtt undir áhuga margra á að fjárfesta í sumarhúsi, að því er kemur fram í hagsjá Landsbankans.

Fermetraverð sumarhúsa hækkað meira en íbúðaverð

Nýjustu gögn um verð sumarhúsa eru frá öðrum ársfjórðungi 2021, en þau sýna að meðalfermetraverð sumarhúsa nam 394 þúsundum króna og hafði hækkað um 16% frá öðrum ársfjórðungi 2020. Ef tekið er mið að þróuninni á síðustu fjórum ársfjórðungum og tekin breyting milli ára sést að sumarhús hafa hækkað um 14% milli ára á sama tíma og íbúðaverð utan höfuðborgarsvæðisins hefur hækkað um 8%.