Álverð og verð annarra hrávara eins og hráolíu og hveiti hefur hækkað mikið í kjölfar innrásar rússneskra stjórnvalda í Úkraínu. Rússland er stór hrávöruútflytjandi, til að mynda á olíu, jarðgasi, hveiti, áli og eðalmálmum.

Konráð S. Guðjónsson, aðalhagfræðingur hjá Stefni, segir erfitt að segja til um áhrif hækkandi hrávöruverðs á íslenskan efnahag, þar sem forsendurnar breytast á degi hverjum. Hráolíuverð hafi til að mynda tekið sveiflu sem samsvarar verðinu á einni tunnu fyrir fáeinum árum. Þannig nam verð á Brent Norðursjávarhráolíutunnu tæpum 130 dölum fyrir tveimur vikum síðan en hefur nú lækkað niður fyrir 100 dali á tunnu.

„Hrávöruverð var hækkandi fyrir stríð og er nú enn hærra en það var fyrir það, svo að við munum sjá áhrif þessa á verðlag á næstunni." Hann segir Ísland þó standa ágætlega í samanburði við önnur Evrópuríki þar sem Ísland er mun síður háð jarðefnaeldsneyti. „Í febrúar var árshækkun orkuverðs almennt 14% hérlendis á milli ára, samanborið við 32% hækkun á evrusvæðinu."

Hækkandi álverð jákvætt fyrir Ísland

Heimsmarkaðsverð á áli hefur verið í hæstu hæðum að undanförnu. Konráð segir að það ætti að skila sér í stórbættri afkomu hjá mörgum af stærri fyrirtækjum landsins sem skilar auknum verðmætum í þjóðarbúið. „Raforkuverð er að miklu leyti tengt álverði, svo að fyrirtæki eins og Landsvirkjun munu stórbæta afkomu sína."

Í fjármálastöðugleikaritinu segir að þrátt fyrir hátt álverð muni skerðing á orkusölu til álvera hafa áhrif á horfur í greininni. Konráð segir að orkuskorturinn muni að einhverju leyti vega á móti aukinni afkomu álveranna, en þó lítið í stóra samhenginu. „Álverð hefur hækkað um hátt í 50% á einu ári og því eru heildaráhrifin á útflutning og hagkerfið jákvæð," segir Konráð.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri benti auk þess á í gær að Ísland væri bæði innflytjandi og útflytjandi á hrávörum og því væri ekki endilega víst að hrávöruverðshækkanir kæmu Íslandi illa.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .