Frumvarp Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, sem birt var í samráðsgátt stjórnvalda í mars, mun rýmka mjög erlendar fjárfestingaheimildir lífeyrissjóðanna. Að auki er með frumvarpinu lagt til að framkvæmd erlendu fjárfestingamarkanna verði milduð mikið. Hækkun hámarksins þykir hinsvegar að mati flestra sem hafa tjáð sig um málið innleidd allt of hægt, auk þess sem orðalag ákvæðisins sem mýkir mörkin þykir óskýrt.

Sífellt hefur orðið erfiðara fyrir hina risavöxnu og ört stækkandi íslensku lífeyrissjóði – sem taldi 5.723 milljarða í hreina eign í lok árs 2020 og hafði þá stækkað um 50% á 5 árum – að finna fjárfestingakosti innanlands fyrir sparnað landsmanna.

Sjóðirnir eiga þegar um hálfa Kauphöllina, vænan hluta ríkisskuldabréfa, nær öll fasteignalán heimilanna með beinum eða óbeinum hætti, auk ýmissa annarra innlendra fjárfestinga. Þeir hafa því í sífellt meira mæli horft til erlendra fjárfestinga og hafa kvartað undan 50% hámarkinu í nokkurn tíma.

Mýkja hámarkið

Eins og hámark á erlendar fjárfestingar er útfært í núgildandi lögum er ekkert svigrúm gefið. Sjóðirnir skulu halda sig undir hámarkshlutfalli erlendra eigna, sléttum helmingi, á gangvirði öllum stundum. Verði frumvarpið að lögum verður sjóðunum þess í stað einfaldlega óheimilt að fjárfesta frekar erlendis fari hlutfallið yfir mörkin.

Þar sem hlutfallið getur sveiflast af ýmsum ástæðum öðrum en fjárfestingarákvörðunum – svo sem hækkun erlendra eigna, lækkun innlendra, eða gengisbreytinga – eru margir sjóðir hingað til sagðir hafa veigrað sér við að fara nálægt þakinu af ótta við að neyðast til að selja erlendar eignir án tillits til markaðsaðstæðna.

Breytingin er þannig útfærð að við lögin bætist einfaldlega setningin: „Við mat á [hlutfalli erlendra eigna] skal tekið mið af virði eigna á viðskiptadegi.“

Þetta telja Samtök atvinnulífsins meðal annars í umsögn sinni um frumvarpið ekki nægilega skýrt. Ekki megi af ákvæðinu skilja hvaða tímapunkt innan áðurnefnds viðskiptadags skuli miða við, sem geti „haft verulega þýðingu fyrir það hvort lífeyrissjóðum sé gert kleift að fullnýta heimildir sínar til erlendra fjárfestinga“.

Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, tekur undir að hlutfallið geti verið afar sveiflukennt án þess að beinar fjárfestingarákvarðanir sjóðsins komi til. „Verðsveiflur geta verið miklar og hlutfallið breyst mikið á skömmum tíma.“

Hættan á að rekast í þakið hafi þó ekki valdið því að sjóðurinn haldi sér markvisst vel undir því hingað til. „Við erum bara meðvituð um stöðuna og myndum í sjálfu sér ekki veigra okkur við að fara nálægt 50, og gera ráðstafanir ef við myndum slá upp fyrir.“

Vilja hraðari innleiðingu

Samkvæmt frumvarpinu hækkar þak erlendra fjárfestinga ennfremur úr 50% í 65% heildareigna, en breytingin var upphaflega lögð til yfir 15 ár, eitt prósentustig á ári út árið 2038. Þessi hægagangur hefur verið nokkuð harðlega gagnrýndur bæði í umsögnum um frumvarpið og í fjölmiðlum, og í byrjun þessa mánaðar bárust fregnir af því að hraðinn yrði aukinn í eitt og hálft prósentustig fyrstu þrjú árin, auk þess sem ráðherra skuli eigi síðar en 2027 leggja mat á hvort tilefni sé til að leggja til aðrar breytingar.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir eðlilegt að velta því upp hvort aðlögunartíminn sem miðað er við í frumvarpinu sé of langur. Þá sé líka eðlilegt að taka mið af þjóðhagslegum aðstæðum í ljósi stærðar lífeyrissjóðanna. Að hans sögn verði núverandi hámark hins vegar ekki endilega takmarkandi þáttur næstu misserin eða árin.

Það stafar bæði af gengisstyrkingu krónunnar og vegna þess að eignir lífeyrissjóðanna hafa vaxið hratt, bæði vegna hækkana á hlutabréfamarkaði en einnig vegna nýrra framlaga.“

Ásgeir nefnir að með frumvarpinu muni andi laganna breytast. „Það verður ekki lengur þannig að lífeyrissjóðirnir þurfi að gera ráðstafanir þegar þeir fara yfir hámarkið og í ljósi þess munu þeir geta farið mun nær hámarkinu.“

Guðrún Hafsteinsdóttir, þingmaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, segir ekkert liggja fyrir um næstu skref, enda eigi nefndin eftir að taka frumvarpið aftur fyrir, en persónulega hafi hún áhyggjur af því að takturinn sé of hægur. Heimildarmenn blaðsins herma einnig að vilji virðist vera fyrir því hjá löggjafanum að stytta hann enn frekar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .