Tveggja milljarða kröfu Sýnar hf. á hendur Símanum hf. hefur verið vísað frá dómi. Aðalkrafa Símans um ógildingu ákvörðunar Póst- og fjarskiptastofnunar lifir hins vegar góðu lífi.

Í júlí í fyrra komst PFS að þeirri niðurstöðu að Síminn hefði brotið gegn ákvæði fjölmiðlalaga sem leggur bann við því að fjölmiðlaveita beini viðskiptum viðskiptamanna sinna að tengdu fjarskiptafyrirtæki. Lögð var 9 milljón króna stjórnvaldssekt á Símann en hámarkssektarfjárhæð er 10 milljónir.

Atvik málsins voru þau að í október 2015 stöðvaði Síminn VOD-leigu sína á kerfum Sýnar, þá Vodafone. Hafði það í för með sér að neytendur sem höfðu hug á að kaupa aðgang að Sjónvarpi Símans Premium þurftu að vera með myndlykil frá Símanum. Sýn og Gagnaveita Reykjavíkur kvörtuðu til PFS yfir háttsemi Símans og Mílu og gerði PFS Símanum sekt vegna þessa.

Síminn höfðaði máls til að fá ákvörðun PFS hnekkt. Sýn hafði á móti uppi gagnsök og krafðist rúmra tveggja milljarða úr hendi Símans til að fá bætt það tjón sem félagið varð fyrir. Var tjónið áætlað rúmlega 15 þúsund krónur á hvern tapaðan viðskiptavin.

Síminn krafðist frávísunar á þeim grundvelli að Sýn hefði dregið „víðtækar og órökstuddar ályktanir um ætlað tjón sitt“ sem eigi sér enga stoð nema vangaveltur Sýnar. Krafan væri svo vanreifuð og fjarstæðukennd að hún væri í andstöðu við skýrleikareglu einkamálaréttarfars.

Sýn lagði á móti áherslu á að krafa fyrirtækisins byggði á því að Síminn hefði beint viðskiptavinum fjölmiðlaveitu sinnar að fjarskiptahluta sínum. Ekki væri byggt á því að Síminn hefði valdið Sýn tjóni með því að stöðva dreifingu VOD-leigunnar. Þá hafi ýmis gögn til rökstuðnings bótakröfunnar verið lögð fram.

„[A]lfarið [er] órökstutt hvernig umræddar tekjur af hverjum viðskiptavini hefðu svarað til hagnaðar hans að sömu fjárhæð þannig að hann hafi orðið fyrir tjóni af völdum [Símans] sem þessu nemur. Að lokum grundvallar [Sýn] fjárhæð kröfu sinnar á því að téðir viðskiptavinir hefðu keypt farsímaáskrift hjá [sér] og virðist að auki miða við að hver viðskiptavinur hefði fært með sér og fjölskyldu sinni eina og hálfa áskrift að farsíma. Til grundvallar þessum forsendum [Sýnar] liggja þó engin töluleg gögn og situr því við tilvísun [fyrirtækisins] til reynslu,“ segir í úrskurði héraðsdóms.

Krafan þótti byggja á einhliða forsendum og nægileg gögn ekki að baki henni. Ekki þótti unnt að bæta úr þessum ágöllum með dómskvaðningu matsmanna. Annmarkarnir voru metnir verulegir og gagnsök Sýnar því vísað frá dómi. Þá var félaginu gert að greiða Símanum hálfa milljón króna í málskostnað.