Friðrik Jónsson, formaður BHM, segir að samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofunnar eigi hagvöxtur að vera 4,6% á árinu sem ætti að marka svigrúmið til raunlaunahækkana á árinu að meðaltali yfir hagkerfið. „Við þurfum líka að hafa það í huga að svigrúmið er mjög mismunandi eftir atvinnugreinum. Í sumum atvinnugreinum er það þannig að framleiðni hefur hækkað töluvert umfram laun. Það eykur ójöfnuð á milli launafólks og fyrirtækjaeigenda," segir Friðrik.

Í komandi kjaraviðræðum sé ekki hægt að líta til lægsta samnefnarans, en háskólamenntað fólk sem starfi í atvinnugreinum með mikla framleiðni eigi að fá að njóta þess. Hann segir arðsemina hjá sumum stórfyrirtækjum aldrei hafa verið meiri og fólk hljóti að horfa til þess. „Arion banki hefur lýst því yfir að hann hyggist hækka sína arðsemiskröfu úr 10 í 13%. Hvaðan kemur þessi 30% aukning? Hún er á kostnað viðskiptavinanna og starfsfólksins."

Að hans sögn ganga kjarasamningar að mörgu leyti út á að lágmarka. Hins vegar sé ekkert því til fyrirstöðu að fólk semji um meira innan atvinnugreina þar sem svigrúmið til launahækkana sé meira. „Við horfum til ákveðins svigrúms til jöfnunar en aðrir þættir þurfa líka að koma til, meðal annars í gegnum millifærslukerfin og skattkerfin."

Friðrik er þeirrar skoðunar að ofuráhersla hafi verið lögð á krónutöluhækkanir í síðustu tveimur kjaraviðræðum. Það sé að mörgu leyti skiljanlegt en setji millitekju- og efri millitekjuhópa í sérkennilega stöðu. „Við erum að horfa fram á að kaupmáttaraukning verði líklega engin, jafnvel neikvæð."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu . Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .