Óttast er að stuðningur frá Kína geti dregið úr áhrifum viðskiptaþvingana gagnvart Rússlandi, en forsetarnir Xi Jinping og Vladimír Pútín hafa styrkt samband sitt undanfarin ár. Kína hefur engin áform um að taka þátt í neinum viðskiptaþvingunum og gætu viðskipti á milli landanna þvert á móti aukist á næstu misserum.

Pólitískur stuðningur Kínverja við innrásina hefur þó reynst minni en talið er að Rússar hafi gert ráð fyrir. Til að mynda sat Kína hjá í stað þess að beita neitunarvaldi þegar Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna freistaði þess að leggja fram ályktun sem fordæmdi innrásina, en ályktunin var felld þar sem Rússland beitti sjálft neitunarvaldi.

Þá hafa Kínverjar í auknum mæli kallað eftir friðsamlegri lausn á deilunni og minnt á mikilvægi þess að virða sjálfsákvörðunarrétt sjálfstæðra ríkja. Kína er stærsta viðskiptaland Rússlands og jukust viðskipti landanna um 36% árið 2021 og námu tæpum 147 milljörðum Bandaríkjadala. Miðað við þær tölur þurfa viðskipti að aukast um önnur 37 prósent til að ná markmiðum Moskvu og Peking um 200 milljarða dala viðskipti fyrir árið 2024.

Hagkerfi Kína nam um 17% af heildarhagkerfi heimsins árið 2020 en hagkerfi Rússlands 1,7%. Í samanburði námu hagkerfi G7-landanna tæpum 46%. Þrátt fyrir sterkt viðskiptasamband Kína og Rússlands og skref í átt að frekari kaupum á orku og landbúnaðarvörum telja sérfræðingar að enn sé langt í land í átt að langtímamarkmiðum þjóðanna.

Hins vegar er talið að kínversk fyrirtæki gætu nýtt sér þann mikla verðmun sem myndast hefur á rússneskri olíu miðað við aðra olíumarkaði, ekki ósvipað því og átti sér stað þegar Bandaríkin settu viðskiptaþvinganir á Íran og Venesúela. Aukningin myndi þrátt fyrir það ekki ná fullu mótvægi við þau viðskipti sem Rússland myndi tapa ef Evrópa lokar alfarið á rússneskan orkumarkað.

Þá þarf Kína einnig að sýna varkárni til að koma í veg fyrir frekari örðugleika í samskiptum sínum við Vesturlönd, sem gætu jafnvel beitt Kína beinum þvingunum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .