Forsala í bílakaupum hjá Brimborg hefur aukist verulega að undanförnu að sögn Egils Jóhannssonar, forstjóra. Hann segir að þróun í átt að aukinni forsölu geti leitt til verðlækkana. „Með þessu erum við að spara mikinn kostnað. Þetta verður næsta byltingin í bílabransanum.“

„Íslendingurinn hefur ekki verið mikið í þessu. Hann hefur helst bara viljað labba inn og fá bílinn afhentan samdægurs.“ Egill segir að slíkt rekstrarumhverfi sé dýrt en að það þurfi ekki mikið til að rjúfa þessa hugmynd.

„Ef það væri hægt að gera þetta víðar í kerfinu á Íslandi þá held ég að vöruverð gæti lækkað alveg gríðarlega mikið. Mér sýnist að Íslendingar séu að færa sig á þessa línu, við sjáum þetta að minnsta kosti í okkar tölum.“

Sjá einnig: Ferðasjóðurinn settur í nýjan bíl

Egill telur stóra sparnaðinn liggja í minni fjárbindingu og vaxtakostnaði vegna fjármögnunar á birgðum. Einnig lækki geymslukostnaður og minni þörf verður á lóðum og húsnæði. Þetta fyrirkomulag komi einnig í veg fyrir pantanir á bílum sem fyrirtækin ná svo ekki að selja.

„Ef þú forpantar þá ertu í samtali við kúnnann snemma. Fólk getur þá breytt bílunum eftir sínum óskum, t.d. lit eða innréttingar sem það langar í og jafnvel bætt við einhverjum aukabúnaði.“

„Þær sendingar sem við erum að fá á næstu dögum eru meira og minna allar fyrirfram seldar, hvort sem það er rafbílar, tengiltvinnbílar, og jafnvel hefðbundnir bensín- og dísilbílar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .