The New York Times Company tilkynnti í gær um kaup sín á geysivinsæla netleiknum Wordle, en milljónir spila leikinn daglega. Samkvæmt Financial Times hljóðar upphæðin upp á milljónir Bandaríkjadala. Josh Wardle, forritari frá Brooklyn í New York, hannaði leikinn í október 2021 sem gjöf fyrir kærustu sína, en vinsældir leiksins jukust gríðarlega í liðnum mánuði.

NYT hefur sett sér markmið að ná 10 milljónum áskrifenda fyrir 2025, en enginn annar fjölmiðill er með eins stóran áskrifendahóp. Útgáfufyrirtækið hefur á síðastliðnum árum byggt upp gríðarstóran hóp áskrifenda og aukið fjöldann enn frekar með stofnun sérstaks leikjaapps, en appið var komið með milljón áskrifenda í desember.

Wordle er frír orðagátuleikur sem inniheldur engar auglýsingar, en The Times segir að Wordle verði áfram frír til að byrja með. Leikurinn snýst um að spilarar giska á eitt fimm stafa orð í sex tilraunum, en einungis er hægt að spila leikinn einu sinni á dag.

Sjá einnig: NYT kaupir The Athletic á 70 milljarða

NYT keypti íþróttafjölmiðilinn The Athletic fyrir rúmum þrem vikum síðan á 550 milljónir Bandaríkjadala, eða um 55 milljarða króna, en kaupin munu ganga í gegn á fyrsta ársfjórðungi. Með kaupunum jókst áskrifendahópur NYT um 1,2 milljónir.