Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að staða hagkerfisins um þessar mundir sé því miður býsna svört. „Síðasta vor settum við hjá Samtökum atvinnulífsins fram þjóðhagsspá og fórum yfir þá framvindu sem við töldum líklega. Okkar spá þótti með þeim svartari af þeim sem komu fram á sjónarsviðið en því miður virðist  hún hafa verið nokkuð nær lagi. Staðan er grafalvarleg."

Halldór Benjamín segir það verulegt áhyggjuefni hve hratt og mikið atvinnuvegafjárfesting hefur dregist saman. Þó hafi ákveðinn áfangasigur verið unnin með þeim átta stöðugleikaaðgerðum sem ríkisstjórnin kynnti samhliða endurskoðun Lífskjarasamningsins. „Á meðal þessara aðgerða er hvatakerfi fyrir svokallaðar grænar nýfjárfestingar. Þær verða þess valdandi að hægt verður að flýta afskriftum á nýfjárfestingum mjög mikið. Þetta bæði lækkar tekjuskatt og myndar yfirfæranlegt tap til framtíðar. Því er um að ræða mjög sterkan hvata sem við þurfum sannarlega á að halda til þess að ná hagkerfinu í gang á nýjan leik," segir hann og bendir á að fjárfesting dagsins í dag sé hagvöxtur morgundagsins.

Ólík fyrri kreppum

Halldór Benjamín kveðst hafa miklar áhyggjur af því ójafnvægi sem nú ríkir á vinnumarkaði. „Atvinnuleysisspár gera flestar ráð fyrir að á bilinu 25-30 þúsund manns verði á atvinnuleysisskrá um áramót. Þetta eru atvinnuleysistölur sem við höfum ekki séð áður í nútímasögu Íslendinga," segir hann og bendir á að kórónukreppan birtist öðruvísi en aðrar sem hafa gengið yfir. Nú ríki mikið atvinnuleysi en á sama tíma sé verðbólgan ekki á miklu skriði. Það sé fjarri lagi, líkt og borið hefur á í umræðunni, að einungis sé um að ræða ferðaþjónustukreppu, þó að mesta aukning atvinnuleysis hafi verið í ferðaþjónustu og tengdum greinum.

„Atvinnuleysistölur eftir mismunandi starfsgreinum sýna að það er mjög vaxandi atvinnuleysi í öllum greinum einkageirans. Nú hefur gengi krónunnar gefið verulega eftir. Viðbragðið hingað til hefur alltaf verið á þann veg að við höfum flutt okkur út úr efnahagsþrengingum, þ.e.a.s útflutningur hefur varðað leiðina út úr kreppum." Núna sé sú leið ekki í boði þar sem þrjár meginútflutningsstoðir þjóðarinnar séu laskaðar og því ekki í neinni stöðu til að bera hitann og þungann af þeirri efnahagslegu uppbyggingu sem framundan er.

„Í fyrsta lagi liggur ferðaþjónustan í dvala og mun ekki, að öllu óbreyttu, fara aftur af stað fyrr en veirunni linnir. Í öðru lagi er sjávarútvegurinn, sem sögulega séð hefur verið mjög sterkur, líka að glíma við kórónukreppuna, sér í lagi á einstaka mörkuðum. Það gengur vissulega ágætlega í ýmsum greinum en hins vegar fást hæstu verðin með sölu sjávarafurða til veitingastaða og stórmarkaða, en þeir aðilar hafa ekki náð fyrri styrk neins staðar í heiminum. Loks er stóriðjan í erfiðri stöðu."

Mesta hættan að fyrirtækin gefist upp

Halldór Benjamín segir að mjög erfitt sé að draga lærdóm af kreppum síðustu áratuga til að heimfæra yfir á þessa. „Fjármálakreppan setti efnahagsreikning fyrirtækja og heimilanna í landinu gjörsamlega á hliðina - núna sést þetta á rektrarreikningi. Atvinnuleysi er aðalvandinn um þessar mundir. Lykillinn til þess að endurreisnin geti átt sér stað tiltölulega hratt er að tryggja að atvinnufyrirtækin séu enn til staðar þegar að við fáum súrefni inn í atvinnulífið á nýjan leik. Mesta hættan sem við stöndum frammi fyrir núna er að fyrirtækin gefist upp og kasti inn handklæðinu. Við verðum að trúa því að þetta sé tímabundið ástand, því ef við hættum að trúa því þá getum við allt eins dregið sængina upp fyrir haus."

Reyna áfram að fresta launahækkunum

Nú í síðasta mánuði leit út fyrir að SA myndi segja upp Lífskjarasamningunum, eða allt þar til ríkisstjórnin kom að borðinu með aðgerðapakka. Halldór Benjamín segir það ljóst að þegar kjarasamningar voru undirritaðir hafi efnahagsumhverfið verið allt annað en nú blasir við. Því séu allar forsendur samningsins foknar út í veður og vind.

„Íslenskri verkalýðshreyfingu hefur allt frá gerð þjóðarsáttarsamningsins borið gæfa til þess að setja atvinnustig umbjóðenda sinna í fyrsta sæti. Þegar gefið hefur á bátinn hefur náðst sameiginlegt viðbragð milli SA og ASÍ svo áratugum skiptir um það að reyna að standa vörð um atvinnustig jafnvel þótt það hafi þýtt breytingar á kjarasamningum sem höfðu þegar verið undirritaðir," segir Halldór Benjamín og bendir á að SA hafi reynt að  nálgast ASÍ með það fyrir augum. SA lagðifram þrjár tillögur. Að fresta launahækkunum og lengja kjarasamninginn sem því nemur, að lækka tímabundið mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð eða að fresta ákvæði um endurskoðun kjarasamninga um skamman tíma.

„Í fyrsta skipti í áratugi hafnar ASÍ þeirri málaleitan að bregðast við gjörbreyttri stöðu í efnahagslífinu. Þetta mun stuðla að auknu atvinnuleysi því innistæðulausar launahækkanir sem koma til framkvæmda um áramótin munu því miður valda lægra atvinnustigi en ella. Það að 25-30 þúsund manns séu án atvinnu um áramótin er staða sem ekki er hægt að búa við. Lausnin þar er svo sannarlega ekki að hækka laun á opinberum og almennum vinnumarkaði, hækka atvinnuleysisbætur og bætur almannatrygginga. Við verðum að vaxa út úr kreppunni. Hagvöxtur er lykillinn á bakvið það að við getum staðið undir þeim grunnkerfum sem við höfum byggt hér farsællega upp."

Halldór Benjamín segir að eftir að hafa gert heildstætt hagsmunamat hafi SA ákveðið að segja ekki upp samningnum að svo stöddu. „Það sem ríkið kemur með að borðinu hjálpar til og mildar höggið en eftir sem áður hafa fæst íslensk fyrirtæki efni á því að standa undir launahækkunum. Afleiðingar hækkanana verða tvíþættar. Annars vegar mun krónan veikjast og hins vegar mun atvinnuleysi aukast. Þetta eru vondir kostir fyrir íslenskt launafólk," segir hann og bætir við að SA sé ekki búið að útiloka að það náist að semja við verkalýðshreyfinguna áður en til launahækkana kemur. Annað sé í raun óhugsandi. „Við munum vitaskuld halda áfram að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að við rísum sem fyrst upp úr þeim efnahagslegum afleiðingum sem óværan hefur ollið hér á landi."

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem kom út á dögunum og unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .