Nótt Thorberg hefur verið ráðin forstöðumaður viðskiptahollustu hjá Icelandair þar sem hún mun stýra rekstri og þróun vildar- og viðskiptavinakerfis félagsins með það að markmiði að efla upplifun og ánægju viðskiptavina.

Nótt hefur langa reynslu af stjórnun og rekstri úr íslensku atvinnulífi. Hún var framkvæmdastjóri Marel á Íslandi á árunum 2016 til 2018 þar sem hún leiddi innlend verkefni í nánu samstarfi við iðnaði og alþjóðleg stoðsvið félagsins.

Hún hóf störf hjá Marel árið 2012 og starfaði fyrstu árin sem markaðsstjóri Marel á Íslandi, auk þess sem hún vann að alþjóðlegum markaðsmálum. Áður starfaði Nótt hjá Samskipum, eða á árunum 2004 til 2012.

Þar stýrði hún söludeild innanlandssviðs í nokkur ár og vann síðan að fjölbreyttum verkefnum innan fyrirtækisins sem fulltrúi framkvæmdastjórnar og forstöðumaður hagdeildar. Samhliða störfum sínum hefur Nótt setið í stjórn Stjórnvísis og Íslensku ánægjuvogarinnar, auk þess sem hún er á meðal stofnenda félagsins Konur í sjávarútvegi.

Nótt er með M.Sc. gráðu í markaðsmálum frá University of Strathclyde í Skotlandi og hefur lokið tveimur diplómagráðum frá Chartered Institute of Marketing. Hún er auk þess menntuð í myndlist og með leiðsögupróf. Sambýlismaður hennar er Sigurjón H. Ingólfsson og eiga þau tvö börn.