Upplýsingatæknifyrirtækið Origo hefur sett í loftið markaðstorgið Reserva þar sem ferðaskrifstofum og hótelum gefst kostur á að finna hvort annað, semja og vinna saman í rauntíma óháð hvaða birgða- og bókunarkerfi hótelin eru að nota.

Á nokkrum vikum er búið að tengja Reserva við rúmlega 65 hótelbókunarkerfi víðsvegar um heiminn og hafa yfir 30 þúsund hótel nú möguleikann á því að nýta sér markaðstorgið. Á Íslandi hafa 100 hótel tengt sig og fyrirtækið væntir þess að þeim muni fjölga á næstu vikum þegar tengingar við fleiri birgðakerfi verða tilbúnar.

„Það er ekkert lát á áhuga markaðarins á þessari lausn sem hönnuð var eftir fjölda samtala við hótel og ferðaskrifstofur,“ segir Steinar Atli Skarphéðinsson, vörustjóri og sérfræðingur í ferðalausnum hjá Origo.

„Það má segja að markaðstorgið sé stafrænn leikvöllur þar sem hótel og ferðaskrifstofur geta unnið saman með skipulögðum hætti. Hótelin geta skráð og uppfært birgðir, myndir, verðskrár, afbókunarskilmála og texta að vild og verða sýnileg á opna markaðstorginu um leið og skráningu er lokið. Við það opnast sölutækifæri gagnvart öllum þeim ferðaskrifstofum sem eru skráðar í Reserva. Um leið og ferðaskrifstofa hefur skráð sig og sína starfsmenn opnast markaðstorg með öllum þeim hótelum innan- sem utanlands sem eru á torginu. Þar hefur ferðaskrifstofan yfirsýn á alla gististaði í kerfinu og getur séð í rauntíma hvaða gistingar eru í boði á gagnvirku korti og gengið frá bókun.“

Steinar Atli útskýrir að til viðbótar við opnar verðskrár geti ferðaskrifstofurnar og hótelin gert sér samninga sín á milli á samningatorginu og haft samskipti í opinni samskiptarás.

Booking Factory opnar starfsstöð í Taílandi

Auk Reserva er Origo starfrækir Origo hótelbókunarkerfið Booking Factory og Caren bílaleigukerfið. Booking Factory kom inn á íslenskan markað árið 2019 og er í dag komið með starfsstöðvar á fjórum stöðum í heiminum. Sú nýjasta opnaði í desember og er í Tælandi en hún sinnir Asíu- og Ástralíumarkaði.

Í samtölum við viðskiptavini Booking Factory fæddist hugmyndin um að þróa bókunarvél sem uppfyllti þarfir ferðaskrifstofa fyrir bókun á gistingu.

„Um leið og ákvörðunin var tekin um að þróa kerfið snerust hjólin hratt eins og árangurinn ber vitni um og á næstu misserum mun tengdum hótelbókunarkerfum og sölurásastjórum (e. channel managers) fjölga enn frekar. Áhuginn varð til þess að ráðinn var svæðisstjóri fyrir Ísland og í farvatninu er að ráða svæðisstjóra á aðal mörkuðum erlendis. Við höldum áfram að stuðla að samkeppni með nýjum og snjöllum lausnum líkt og þegar Booking Factory var kynnt á Íslandi. Núna er röðin komin að Reserva,“ segir Steinar Atli.