Frumvarp Willums Þórs Þórssonar, heilbrigðisráðherra, um breytingar á lögum um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur er til umræðu á Alþingi í kvöld. Með frumvarpinu á að fella nikótínpúða undir gildissvið laganna, en einnig hefur vakið athygli að í frumvarpinu er lagt til að bannað verði að flytja inn, framleiða eða selja nikótínvörur og rafrettur sem innihaldi nammi- eða ávaxtabragð og kunni þannig að höfða til barna.

Berglind Ósk Guðmundsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, setti spurningamerki við fyrirhugaða lagabreytingu í umræðu á þinginu. Í ræðu sinni benti Berglind á að mat á því hvort bragðefni höfði til barna sé háð huglægum mælikvörðum. Hins vegar sé skýrt kveðið á um bann við afhendingu og sölu nikótínvara til einstaklinga yngri en 18 ára. "Bann við nammi- og ávaxtabragði myndi því fyrst og fremst hafa áhrif á og takmarka það úrval sem stendur fullorðnum einstaklingum til boða," sagði Berglind Ósk í ræðu sinni.

Berglind Ósk benti einnig á að í greinargerð með frumvarpinu væri tekið fram að: „Mikið og öflugt forvarnarstarf um skaðsemi tóbaksreykinga og vitundarvakning fólks um skaðsemi tóbaks hefur ekki síður skilað sér í að fólk ákveði að láta af tóbaksneyslu."

Hún undrast að í stað þess að láta reyna á forvarnarstarf í þágu barna og ungmenna, í ljósi þeirrar góðu reynslu sem lýst sé í greinargerðinni, væri gripið til „gegndarlausrar forræðishyggju" þar sem gripið væri til verulega íþyngjandi reglna. „Mér finnst þetta ódýr leið til að leysa þann vanda sem neysla barna á nikótínvörum er," sagði Berglind Ósk.

Berglind Ósk telur innlenda fjölmiðla munu bera skarðan hlut frá borði en í frumvarpinu er markaðssetningu nikótínpúða settar skorður. Þá segir hún að ómögulegt verði að framfylgja banninu nema í innlendum fjölmiðlum.

„Slíkt bann yrði því alltaf tilgangslaust og er aðeins til þess fallið að draga úr auglýsingatekjum íslenskra fjölmiðla sem þegar standa höllum fæti. Við ættum því öllu heldur að stefna að því að afnema bann við áfengis- og tóbaksauglýsingum þar sem að það þjónar ekki lengur tilgangi sínum þar sem Íslendingar eru hvort eð er berskjaldaðir fyrir þeim auglýsingum á erlendum miðlum, sér í lagi samfélagsmiðlum," segir Berglind Ósk.