Í gærkvöldi varð óhapp í dæluskúr á Fáskrúðsfirði þegar verið var að dæla olíu um borð í uppsjávarskipið Hoffell SU-80. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Skeljungi. Teljari inni í olíudæluskúr gaf sig með þeim afleiðingum að olía spíttist úr honum, flæddi út úr skúrnum og í höfnina. Starfsmaður við dælinguna fann fljótlega olíulykt og brást við með því að stöðva þegar dælingu. Ekki hægt að segja til með nákvæmum hætti um það hve mikið magn lak í sjóinn eins og er.

Þegar var tilkynnt til yfirvalda um slysið og allir tiltækir menn kallaðir til. Óskað var eftir aðstoð björgunarsveitarinnar á staðnum, Geisla, sem vann afar gott starf við að hefta útbreiðsu lekans. Bátar björgunarsveitarinnar slæddu olíuna af sjónum og söfnuðu í flekk sem síðan var soginn upp með dælubíl. Fljótt var þannig náð góðum tökum á útbreiðslu olíunnar og stjórn á ástandinu. Á sama tíma var ráðist í þrif í kringum dæluskúrinn. Afar góðar aðstæður voru til hreinsunarstarfs, þar sem veður var mjög gott á svæðinu, hægur andvari sem stóð inn fjörðinn, þurrt og bjart.