Norski olíusjóðurinn átti eignir hér á landi upp á 32 milljarða króna í lok síðasta árs, sem er það mesta síðan fyrir hrun og 15% aukning milli ára. Nánast öll upphæðin er í skuldabréfum, mest ríkistryggðum.

Sjóðurinn hefur stækkað stöðu sína á Íslandi verulega á síðustu árum. Árið 2018 ríflega tvöfölduðust eignir hans milli ára í 13,3 milljarða, og aukningin hefur verið veruleg á hverju ári síðan.

Sjóðurinn keypti einnig hlutabréf hér í fyrsta sinn árið 2018, fyrir 170 milljónir króna í Arion banka, og árið eftir bætti hann við ríflega 1,2 milljörðum í Marel. Sá hlutur var hinsvegar seldur á árinu 2020, og í lok síðasta árs hafði hluturinn í Arion minnkað úr tæpum 240 milljónum í rúmar 160 árið áður, þrátt fyrir ríflega tvöföldun hlutabréfaverðs bankans á árinu.

Bróðurpartur eignasafnsins hefur þó alltaf samanstaðið af skuldabréfum, og í lok síðasta árs voru 84% þeirra tengd ríkinu, en þar af eru tæpir 20 milljarðar í ríkisskuldabréfum og 7,3 milljarðar í bréfum Landsvirkjunar.

Restin er í skuldabréfum bankanna, þarf af nánast allt í sértryggðum bréfum Arion banka, eða tæpir 5 milljarðar, en einnig 126 milljónir í skuldabréfum Landsbankans og 10 milljónir í skuldum Kaupþings ehf.