Greiningaraðilar óttast að hráolíuverð fari upp í 125 dali á tunnu, en hráolíuverð hefur hækkað ört að undanförnu. Sumir sérfræðingar eru jafnvel farnir að spá því að hráolíuverð fari upp í 150 dali á tunnu. Þetta kemur fram í grein hjá CNBC.

Hráolíuverð hefur meðal annars hækkað að undanförnu vegna mögulegrar innrásar Rússa í Úkraínu. Í ofanálag hefur framleiðsla á olíu verið minni en markaðir vonuðust eftir, og áhersla margra ríkja færst frá olíu yfir í endurnýjanlega orku. Samkvæmt grein CNBC skorti um 700 þúsund tunnur á dag í olíuframleiðslu OPEC+ ríkjanna í janúar. Á tímum verðbólgu eru greiningaraðilar að mæla með fjárfestingum í orkufyrirtækjum og hafa alþjóðleg olíufyrirtæki hagnast mikið að undanförnu.

Michael Tran, sérfræðingur hjá RBC Capital Markets segir að hráolíuverð muni halda áfram að hækka, en bankinn spáir því að hráolíuverð fari í hið minnsta upp í 115 dali á tunnu í sumar.

Sjá einnig: Olíuverð komið yfir 90 dali á tunnu

Verð á Brent og WTI hráolíu hefur hækkað mikið að undanförnu. Hin bandaríska WTI hráolía, sem er að mestu leyti framleidd í Texas ríki, hefur hækkað um 22% á árinu og stendur í rúmum 91 dölum á tunnu.

Brent hráolía, sú olía sem Evrópubúar nota, nálgast nú óðfluga 100 dala þröskuldinn. Olían hefur hækkað um 21% á árinu og stendur í rúmum 94 dölum á tunnu, en var komin upp í rúma 96 dali á tunnu fyrr í mánuðinum.