Öllum starfsmönnum Eflingar verður sagt upp störfum samkvæmt tillögu sem Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar fékk samþykkta á stjórnarfundi Eflingar í dag að því er fram kemur í frétt Vísis. Tillagan er sögð hafa verið samþykkt með átta manna meirihluta B-lista þrátt fyrir hörð mótmæli minnihluta stjórnarinnar.
Samkvæmt frétt Vísis eru uppsagnirnar sagðar hluti af umfangsmiklum skipulagsbreytingum á skrifstofu Eflingar og þar sem breyta eigi ráðningarkjörum allra starfsmanna. Þá eru uppsagnirnar sagðar taka gildi um næstu mánaðamót. Samkvæmt tillögu Sólveigar Önnu verða öll störf verði auglýst og gerð krafa um að starfsmenn vinni uppsagnarfrestinn. Meðal ástæðna fyrir breytingunum er sagðar vera jafnlaunavottun, nýjar starfslýsingar, hæfniviðmið og breytingar á launakerfi.
Mikil átök hafa verið innan Eflingar undanfarna mánuði og misseri. Sólveig Anna sagði af sér sem formaður í október vegna þess sem hún sagði vantraustsyfirlýsingu starfsmanna Eflingar. Hún bauð sig fram á ný sem formaður Eflingar í febrúar þar sem hún var endurkjörin og tók hún því nýlega við embættinu aftur.