Nokkur fjöldi aðila leggur til að efnahags- og viðskiptanefnd þingsins geri talsverðar breytingar á frumvarpi sem felur í sér breytingar á hinum ýmsu lögum er gilda um opinber gjöld. Meðal þess sem kallað er eftir að taki breytingum er að skyldan til staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts af arðgreiðslum verði færð frá útgefendum hlutabréfa til fjármálafyrirtækja og að gengið verði skrefinu lengra hvað varðar breytingar á staðgreiðslu á söluhagnaði hluta- og stofnbréfa.

Í frumvarpinu er farið um víðan völl en meðal annars plástrar það tímabundið þá stöðu sem hefur verið uppi varðandi tvöfalda málsmeðferð í skattamálum hér á landi. Þá er lagt til að álagning lögaðila verði seinkað um mánuð, kærufrestur vegna hennar verði styttur í einn mánuð í stað þriggja og að afgreiðslutími Skattsins verði lengdur á móti.

Mikil fyrirhöfn en litlar tekjur

Þá kveður frumvarpið einnig á um að greiðslur til aðila sem bera takmarkaða skattskyldu hér á landi sæti ekki staðgreiðslu af söluhagnaði á íslenskum hlutabréfum og stofnbréfum. Núverandi fyrirkomulag felur í sér háar endurgreiðslur ríkissjóðs og skilar litlum tekjum til ríkisins. Til dæmis nam staðgreiðsla árið 2018 172,7 milljónum króna en að endurgreiðslum loknum stóðu 12,8 milljónir eftir. Fyrirhöfn fyrir framteljendur er hins vegar umtalsverð. Þessari fyrirhuguðu breytingu er fagnað en ýmsir viðra þá skoðun að ekki sé gengið nægilega langt.

Í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) er meðal annars bent á að það fyrirkomulag sem hefur verið við lýði hafi skapað vandkvæði hvað varðar seljanleika íslenskra bréfa á alþjóðamarkaði. Við slík viðskipti er nauðsynlegt að alþjóðlegt greiðslumiðlunarfyrirtæki hafi þau til umsýslu en borið hafi á því að þau hafi hafnað að taka íslensk hlutabréf í vörslu fyrir íslensk fjármálafyrirtæki þar sem ómögulegt sé fyrir þau að uppfylla núgildandi lagaákvæði.

„Ljóst er að þó svo að staðgreiðsluskyldan verði felld niður þá hvílir enn skylda á alþjóðlegu greiðslumiðlunarfyrirtækjunum að skila upplýsingum um viðskipti með íslensk hlutabréf til ríkisskattstjóra til forskráningar á skattframtöl,“ segir í umsögninni. Staðreyndin sé hins vegar sú að fyrirtækin búi ekki yfir þessum upplýsingum heldur aðeins íslensk fjármálafyrirtæki. Er því lagt til að upplýsingaskyldan hvíli á innlendum fjármálafyrirtækjum í þeim tilvikum er erlend fyrirtæki taka að sér vörslu hlutabréfa fyrir íslenskan vörsluaðila. Greiðslumiðlunarfyrirtækið Clearstream vekur einnig athygli á þessari stöðu í umsögn sinni og leggur til að bót verði gerð á. Hið sama gerir Seðlabanki Íslands sem segir mikilvægt að fækka aðgangshindrunum að innlendum mörkuðum enda sé þátttaka erlendra aðila á skuldabréfamarkaði hér á landi með minnsta móti um þessar mundir. Þá taka Deloitte og Nasdaq á Íslandi í sama streng.

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .