Birta lífeyrissjóður opnaði aftur fyrir umsóknir um endurfjármögnun sjóðfélaga á fimmtudaginn síðasta, 18. júní, en lokað hafði verið fyrir umsóknir í meira en tíu vikur.

Þegar sjóðurinn tilkynnti um ákvörðunina þann 4. apríl síðastliðinn kom fram að hún hafi verið tekin vegna álags sem fylgdi greiðsluerfiðleikaúrræðum ríkisstjórnarinnar vegna Covid.

Vextir óverðtryggðra sjóðfélagalána Birtu lækkuðu þann 1. júní og standa nú í 2,10% sem er um 1,4 prósentustigum lægri en næst-hagstæðustu lánin í sama flokki sem fást hjá Landsbankanum, samkvæmt vef Aurbjargar .

Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu, sagði í viðtali við Viðskiptablaðið fyrr í mánuðinum að ákvörðunin um lokun á umsóknir um endurfjármögnun hafi verið ótengt vaxtaálagi sjóðfélagalána. Erfitt hafi verið að veita fulla þjónustu þegar allir ferlar voru breyttir og starfsfólk að vinna að heiman. Einnig voru tafir hjá öðrum í ferlinu líkt og hjá sýslumanni.

„Við gerðum hlé á endurfjármögnun til að tryggja að við getum veitt þjónustu til þeirra sem eru að taka lán og kaupa sér fasteign. Við erum ekki að gera hlé á endurfjármögnun vegna þess að vextir eru að lækka,“ sagði Ólafur.

Stjórn fer yfir vaxtastefnu í haust

Breytilegir vextir óverðtryggðra lána hjá Birtu hafa ákvarðast síðustu þrjú árin þannig að 1,1% álag er lagt ofan á stýrivexti Seðlabankans. Í fréttatilkynningu Birtu segir að útlit sé fyrir að á því verði breyting þegar líður á árið og vaxtaálag tekið til endurskoðunar.

Í skörpu vaxtalækkunarferli Seðlabanka Íslands vegna COVID hafa þau ríkisskuldabréf sem standa sjóðnum til boða á markaði ekki fylgt vaxtalækkunum bankans jafn skarplega eftir. Breytingar á óverðtryggðum vöxtum Birtu hafa hins vegar orðið nánast um leið og Seðlabankinn lækkar stýrivexti sína.

Stjórn Birtu lífeyrissjóðs fer í haust yfir stöðuna í starfseminni eins og gert er árlega. Fjallað verður um vexti á sjóðfélagalánum, markaðsvexti yfirleitt og endurmat lagt á verðlagningu á áhættu, kostnaði og þjónustu neytendalána.

Færri beiðnir um frestun gjalddaga en búist var við

Starfsmenn Birtu hafa lokið við að breyta skilmálum allra sjóðfélaga sem sóttu um að fresta gjalddögum lána sinna. Slíkar umsóknir reyndust umtalsvert færri en gert var ráð fyrir.

Í tilkynningu Birtu segir að nærtæk skýring á því kann að vera sú að færri sjóðfélagar hafi misst vinnuna að hluta eða öllu leyti vegna COVID en óttast var þegar faraldurinn var sem skæðastur. „Þá má vel vera að lágir og lækkandi vextir á lánum Birtu hafi hjálpað fólki að standa í skilum. Vanskil hjá Birtu hafa í það minnsta ekki aukist,“ segir í tilkynningu sjóðsins.