Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,22% í dag er tólf af tuttugu félögum aðalmarkaðar Kauphallarinnar voru græn í viðskiptum dagsins. Hlutabréfaverð Origo hækkaði mest allra félaga á markaðnum, eða um tæp 8% í 360 milljóna viðskiptum. Gengi bréfa Origo stendur nú í 81,5 krónum á hlut. Gengið hefur hækkað um 12% í þessari viku og um 25% í þessum mánuði.

Heildarvelta á aðalmarkaði nam 5,2 milljörðum króna. Mest velta var með bréf Marels, en viðskipti með bréfin námu milljarði króna. Næst mest velta var með bréf Eimskips, um 880 milljónir króna. Gengi bréfa félagsins hækkaði um 2,9% í viðskiptum dagsins. Sýn hækkaði um tæp 2,8% í viðskiptum dagsins, en félagið birti árfjórðungsuppgjör í dag eftir lokun markaða.

Aðeins þrjú félög á aðalmarkaði Kauphallarinnar lækkuðu í viðskiptum dagsins, en það voru Skeljungur, Síminn og Kvika, þar af lækkaði gengi Skeljungs um 2,5%.

Á First North markaðnum var helst til tíðinda tæp 5% hækkun á gengi bréfa Play. Viðskipti með bréfin námu 430 milljónum króna. Solid Clouds lækkaði um 6% í 270 þúsund króna viðskiptum.