Kínverskt risagámaflutningaskip var fyrst til að sigla í gegnum stækkaðan Panamaskurð, en framkvæmdir við stækkunina hófust 2007. Ætlunin var að þær yrðu tilbúnar 2014 en þær töfðust vegna deilna um kostnað og verkfalla. Framkvæmdirnar kostuðu um 5,2 milljarða Bandaríkjadala. Skurðurinn er 77 kílómetra langur og getur nú annað ferðum stærri skipa en áður.

Fær brátt samkeppni frá Níkaragúa

Sagði forseti Panama, Juan Carlos Varela, að skipaskurðurinn væri leið sem sameinaði heiminn. Skurðurinn var fyrst notaður í ágústmánði árið 1914, en hann var byggður af Bandaríkjamönnum. Panama fékk yfirráðarétt yfir skurðinum árið 1999.

Milli 35 til 40 skip sigla um skurðinn á hverjum degi og vonast ríkisstjórn landsins að stækkunin muni auka tekjur þess af skurðinum sem voru 2,6 milljarðar Bandaríkjadala á síðasta ári.

Nú stefnir hins vegar í að skurðurinn fái samkeppni en kínverskt fyrirtæki er að byggja annan skipaskurð í gegnum Níkaragúa, en hann á að vera bæði dýpri og breiðari en Panama skurðurinn. Hófust framkvæmdirnar við hann árið 2014, verður hann 278 kílómetra langur og áætlaður kostnaður um 50 milljarðar Bandaríkjadala.