Sean Parker, stofnandi skráardeilingarforritsins Napster og fyrrverandi stjórnarformaður Facebook, og eiginkona hans Alexandra Lenas eru meðal fjárfesta í nýju lúxushóteli sem senn mun rísa á jörðinni Svínhólum, um tuttugu mínútna akstursfjarlægð frá Höfn í Hornafirði. „Þau komu inn í þetta verkefni mjög snemma í ferlinu,“ segir Áslaug Magnúsdóttir, fjárfestir og stofnandi tískvöruvefsíðunnar Moda Operandi, í viðtali í Viðskiptablaðinu.

„Sean finnst þetta spennandi af því að við viljum koma saman sérfræðingum hverjum á sínu sviði. Hann er auðvitað mjög framarlega í tækniheiminum,“ segir Áslaug. Hótelið er fyrsta fjárfestingaverkefni Áslaugar hér á landi en hún þykir vera í fremstu röð í tískuheiminum eftir tveggja áratuga dvöl erlendis.

„Fyrsta stigið er að reisa hótel þar sem áherslan verður á heilsu og vellíðan. Það verður mikið lagt upp úr hollum mat og að hægt verði að fara í  góðar dekurmeðferðir. Jörðin á Svínhólum er ótrúlega falleg, með fallegum gönguleiðum. Svo verður hægt að fara í bátsferðir á lóninu. Þannig að þetta verður algjör útivistar- og heilsuparadís,“ segir Áslaug.

Stefnt er að byggingu lúxushótels og einbýlishúsa sem seld verða einstaklingum sem orlofshús. Búist er við að kostnaður við verkefnið muni nema um fimm milljörðum króna.

Parker skaust fyrst upp á stjörnuhimininn um tvítugt, þegar hann bjó til skráardeilingarforritið Napster. Parker gekk til liðs við Facebook árið 2004, fimm mánuðum eftir stofnun fyrirtækisins, og var um tíma stjórnarformaður þess. Í dag situr hann í stjórn Spotify. Samkvæmt auðmannalista Forbes er Parker meðal þúsund ríkustu manna heims og eru auðæfi hans metin á 2,6 milljarða dollara, eða um 280 milljarða króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .