Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á flugi til New York í Bandaríkjunum. Fyrsta flug Play til New York verður þann 9. júní og boðið verður upp á daglegt flug. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flugfélaginu. Þetta er þriðji áfangastaður félagsins í Bandaríkjunum en flug til Boston hefst í maí og til Baltimore/Washington í apríl.

Play mun fljúga til New York Stewart International flugvallar og verður eina flugfélagið með millilandaflug til og frá vellinum. Flugfélagið mun geta boðið upp á lægstu fargjöldin á milli New York og Evrópu þar sem lendingargjöld á New York Stewart flugvelli eru 80% ódýrari en á öðrum flugvöllum í New York. Jafnframt munu flugvélar Play eyða minni tíma í akstur á jörðu niðri og í biðflugi vegna lítillar umferðar á flugvellinum, að því er fram kemur í tilkynningu.

Flugfélagið mun fljúga til 25 áfangastaða í Bandaríkjunum og Evrópu á næsta ári og mun notast við sex Airbus A320neo og A321neo flugvélar næsta sumar.

Rick Cotton, framkvæmdastjóri New York og New Jersey hafna:

„Þetta er þýðingarmikil þróun fyrir New York Stewart flugvöllinn, svæðið og viðskiptavini sem völlurinn þjónar. Með þessum tíðindum undirstrikum við, nú þegar kórónuveirufaraldurinn er á undanhaldi, þá sýn sem við höfum um að gera New York Stewart-flugvöllinn að leiðandi afli í millilanda- og innanlandsflugi og mikilvægi hans til að auka hagvöxt á svæðinu."

Birgir Jónsson, forstjóri Play

„Eftir að hafa kynnt okkur uppganginn á svæðinu í kringum flugvöllinn og kosti hans vorum við ekki lengi að stökkva á vagninn. Þessi ákvörðun gerir okkur kleift að bjóða upp á lægsta verðið á milli New York og Evrópu þar sem sem við höfum fengið sérstaklega góð kjör hjá vellinum því við erum eina flugfélagið með millilandaflug til og frá New York Stewart. Þá ríkir mikil eftirvænting og spenna fyrir starfsemi Play á New York Stewart meðal hagsmunaaðila á svæðinu þar sem hefur verið mikill uppgangur undanfarin ár."