Flugfélagið Play hefur hlotið viðurkenningu TheDesignAir fyrir flottasta nýja útlitið (e. Best new livery) árið 2021.

Í umsögn dómnefndar TheDesignAir segir að Play hafi skapað djarft, svipmikið útlit sem færi gleðina aftur í flugið. Einföld og áberandi hönnun Play skeri sig þannig úr og endurspegli sannarlega slagorð félagsins „Leikvöllur í háloftunum!".

Þá segir að spennandi og ögrandi útlit Play, innan um hafsjó dæmigerðra júróhvítra félaga, hafi fangað athygli allra dómaranna. Loks segir að litanotkun, letur og ferskir, stællegir búningar hafi hækkað rá lággjaldaflugfélagsins.

Birgir Jónsson, forstjóri Play, segir Play teymið virkilega stolt viðurkenningunni. „Útlit flugvélanna hefur fengið góðar viðtökur og er eftir þeim tekið hvar sem þær koma við. Einkennisfatnaður áhafnarinnar hefur sömuleiðis vakið mikla eftirtekt enda boðar hann breytta tíma," er haft eftir honum.

The Design Air er hönnunarfyrirtæki sem sinnir ráðgjöf til flugfélaga. Fyrirtækið hefur unnið með mörgum þekktum vörumerkjum innan flugiðnaðarins og veitir árlega hönnunarverðlaun til flugfélaga ásamt því að vera í samstarfi við tímarit og vefmiðla innan geirans. Umfjöllun um viðurkenningarhafa ársins 2021 má finna hér .