Bílaleigan Procar hagnaðist um tæplega hálfa milljón króna á síðasta rekstrarári samanborið við 35 milljóna króna hagnað árið áður. Tekjur bílaleigunnar námu 970 milljónum króna og drógust lítillega saman frá fyrra ári. Þá nam rekstrarhagnaður 89 milljónum króna. Eignir Procar námu tæplega 1,2 milljörðum króna og eigið fé nam 74 milljónum króna. Skuldir námu 1,1 milljarði króna.

Laun og launatengd gjöld námu rúmlega 281 milljón króna og hækkuðu um 15 milljónir frá árinu 2017, en ársverk bílaleigunnar árið 2018 voru 40 talsins. Félagið Platinum ehf. er stærsti hluthafi Procar með 65% hlut í sinni eigu, en eftirstandandi 35% eru í eigu Gunnars Björns Gunnarssonar. Í byrjun árs var Procar mikið í umræðunni, eftir að greint var frá því að félagið hefði um árabil stundað það að breyta kílómetrastöðu bíla sinna áður en þeir voru settir á sölu.