Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningamálaráðherra, hefur skrifað undir samning við sjálfseignarstofnunina Almannaróm um rekstur miðstöðvar máltækniáætlunar til ársins 2022, til að „tryggja að hvers kyns tæki og tól tali og skilji íslensku og tungumálinu verði þar með forðað frá stafrænum dauða vegna yfirburðastöðu enskunnar.“. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samtökum Atvinnulífsins.

Meðal verkefna sem ráðast á í er að kynna möguleika máltækni fyrir fyrirtækjum og stofnunum, og koma á samstarfi við erlend fyrirtæki sem þróa máltæknilausnir og fylgjast með möguleikum á fjölþjóðlegu þróunarsamstarfi í máltækni.

Markmið máltækniáætlunarinnar er m.a. sagt vera að íslensku verði að finna í öllum tækjabúnaði og hugbúnaði stærstu tæknifyrirtækja heims. Tími til stefnu sé naumur, vegna þess að gervigreind og máltækni í heiminum þróist á ógnarhraða, og það sé mikilvægt að Ísland sitji ekki eftir.