Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) féllst á hluta umsóknar Íslandspósts ohf. (ÍSP) úr jöfnunarsjóði alþjónustu.Verði ákvörðun PFS ekki hnekkt mun upphæðin, 1.463 milljónir króna, að öllum líkindum lenda á ríkissjóði.

Samkvæmt lögum skal jöfnunarsjóður alþjónustu fjármagnaður með lögákveðnu gjaldi sem lagt er á rekstrarleyfishafa. Það gjald hefur hins vegar aldrei verið lagt á og því ekki til króna í sjóðnum. Það skal tekið fram að um tvo aðskilda jöfnunarsjóði er að ræða, það er einn fyrir póstþjónustu og annan fyrir fjarskipti. Sá síðarnefndi hefur verið virkur um árabil en sá fyrrnefndi ekki. Fyrir jól samþykkti Alþingi heimild til að veita ÍSP allt að 1,5 milljarða neyðarlán til að mæta lausafjárþurrð. Fullyrti ÍSP að fyrirtækið myndi endurgreiða lánið með framlagi úr jöfnunarsjóðnum.

Á leið fyrir þingið

„[E]f miðað er við stöðuna á markaðnum í dag má ætla að ÍSP myndi greiða um 82% af álögðu jöfnunargjaldi eða um 1.200 milljónir króna,“ segir í ákvörðun PFS. Afgangurinn, 263 milljónir, myndi skiptast á milli annarra fyrirtækja á póstmarkaði. „Jöfnunargjaldsleiðin myndi því í reynd ekki leysa þann vanda sem upp er kominn í rekstri [ÍSP] sem tengist hinum erlendu póstsendingum og án efa valda öðrum markaðsaðilum verulegum vandræðum.“

Hinn kosturinn er að úthlutunin úr sjóðnum verði fjármögnuð af ríkissjóði. Með öðrum orðum, ríkið mun afhenda ÍSP tæplega 1,5 milljarða svo að hið opinbera hlutafélag muni geta endurgreitt neyðarlánið frá ríkinu fallist Alþingi á slíka lánveitingu. Útlit er þó fyrir að ekkert verði af frekari lánveitingu til ÍSP eftir að ríkisábyrgðasjóður sagði að vandi fyrirtækisins væri slíkur að hann yrði ekki leystur með lánsfé. Þess í stað var lagt til að hlutafé yrði aukið um 1,5 milljarða á árinu.

Frá því að rekstrarvandi ÍSP kom upp á yfirborðið fyrir jól hefur samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið haft til skoðunar hvort eftirlit PFS með starfsemi fyrirtækisins hafi verið fullnægjandi. Samkvæmt lögum um stofnunina ber henni m.a. að hafa eftirlit með fjárhagsstöðu aðila sem falla undir eftirlitið. Í svörum PFS við erindum ráðuneytisins kemur fram að stofnunin telji eftirlit sitt eingöngu ná til þeirra þátta er lúta einkarétti og alþjónustu. Þá vinnur ríkisendurskoðandi að stjórnsýsluúttekt á starfsemi ÍSP að beiðni þingsins

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .