Mat aðalmanna í endurskoðendaráði á hæfi sínu í máli er varðar ágreining innan eigendahóps Deloitte var ekki í samræmi við hæfisreglur stjórnsýslulaga. Þetta er mat umboðsmanns Alþingis sem mælist til þess að ráðið taki málið til meðferðar að nýju ef slík beiðni berst frá kærandanum Ágústi Heimi Ólafssyni.

Málið á rætur að rekja til starfsloka Ágústs hjá Deloitte í febrúar 2017 en þá var honum sagt upp hjá störfum vegna meintra brota gegn ráðningarsamningi og siðareglum endurskoðenda. Var það meðal annars gert sökum þess að hann hefði tekið að sér verkefni fyrir fyrirtæki í fiskeldi en síðar átt aðild að kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þar sem ógildingar á starfsleyfi félagsins var krafist. Þá hefði hann áður hlotið áminningar fyrir brot gegn óhæðisreglum.

Sjá einnig: Illdeilur í eigendahópi Deloitte

Til nokkurs ágreinings kom í eigendahópi Deloitte vegna þessa en uppsögn Ágústs stóð eftir atkvæðagreiðslu eigenda um efnið. Höfðaði hann mál vegna þessa þar sem hann krafðist bóta vegna tapaðra launatekna og miskabóta. Þá hafði hann uppi kröfu vegna innlausnarverð hlutar síns, kröfu vegna hagnaðarhlutdeildar og ógildingar á ákvæði um samkeppnistakmörkun í kjölfar starfsloka hans. Samanlagt hljóðaði dómkrafan upp á tæpar 156 milljónir króna.

Nokkrir fyrrverandi eigendur Deloitte, sem stefnt var í málinu, skiluðu sérgreinargerð við meðferð þess þar sem tekið var undir málatilbúnað Ágústs. Í héraðsdómi í mars voru honum dæmdar rúmlega 4 milljónir króna en sýknað að öðru leyti. Málinu hefur verið áfrýjað til Landsréttar.

Nefndarmaður í endurskoðendraráði í hópi stefndu

Málinu var ekki aðeins stefnt fyrir dóm heldur sendi Ágúst einnig inn kæru til endurskoðendaráðs þar sem hann taldi að brot gegn lögum um endurskoðendur og siðareglum endurskoðenda þegar honum var sagt upp störfum.

Kæra hans beindist meðal annars að Pálínu Árnadóttur en sú á sæti í endurskoðendaráði auk þess að vera í eigendahópi Deloitte. Þá er Áslaug Árnadóttir, formaður endurskoðendaráðs, einn eigenda lögmannsstofunnar Landslaga en Jóhannes Karl Sveinsson, einn meðeigenda hennar, hafði tekið að sér lögmannsstörf fyrir fjóra úr eigendahópnum í fyrrgreindu dómsmáli. Viku þau bæði sæti við meðferð málsins af þeim sökum.

Almennt er það svo að vanhæfi eins veldur ekki vanhæfis annars en aðrir nefndarmenn veltu fyrir sér hvort þeim bæri einnig að víkja sæti í ljósi þess að tveir nefndarmanna hefðu lýst sig vanhæfa við meðferð málsins. Leitaði ráðið því álits tveggja lögfræðinga sem eru sérfræðingar í stjórnsýslurétti. Að því mati fengnu afréðu þeir þrír ráðsmenn sem eftir stóðu að þeir væru ekki vanhæfir, meðal annars þar sem önnur úrræði en áminning væru ekki til skoðunar og að málið varðaði ekki „mikilvæga hagsmuni“.

Tveir varamenn voru kallaðir inn til að afgreiða málið og var kveðinn upp úrskurður í málinu í nóvember í fyrra. Fjórum kæruliðum af sjö var vísað frá þar sem þeir féllu utan valdsviðs ráðsins. Í þeim liðum er teknir voru til efnislegrar umfjöllunar var komist að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið um brot að ræða. Undan þeirri afgreiðslu var kvartað til umboðsmanns Alþingis.

Sennileg niðurstaða má ekki hafa áhrif á mat á hæfi

Í áliti umboðsmanns kemur fram að þær aðstæður sem voru fyrir hendi hafi kallað á að meta hafi þurft hæfi annarra nefndarmanna heildstætt. Ekki væri útilokað að nefndarmenn gætu orðið vanhæfir þegar samnefndarmaður þeirra væri aðili máls og það reyndi á mikilvæga hagsmuni hans. Dæmi um slíkt þekkist hjá dómstólum. Til að mynda viku allir dómarar Hæstaréttar sæti í máli Lánasjóðs íslenskra námsmanna gegn Viðari Má Matthíassyni sem og meiðyrðamáli Þorvalds Gylfasonar gegn Jóni Steinari Gunnlaugssyni.

„Meðal þess sem getur þurft að líta til er hversu náið mál varðar nefndarmann sem skortir hæfi, hvort sú ákvörðun sem málið varðar byggist á matskenndum lagagrundvelli og þá hversu matskenndum, hver sé staða og hlutverk nefndarinnar í stjórn­sýslukerfinu, hvort fleiri en einn eigi aðild að málinu og hafi andstæðra hagsmuna að gæta af niðurstöðu þess og hvort niðurstaða nefndarinnar geti varðað mikilvæga hagsmuni nefndarmannsins,“ segir í áliti umboðsmanns.

Í álitinu er á það bent að áðurnefnd Pálína hafi ekki vikið sæti vegna tengsla við málsaðila heldur hafi hún gert það þar sem hún átti sjálf aðild að málinu og hafði beina og persónulega hagsmuni af lyktum þess. Mál það sem var til afgreiðslu varðaði ekki fastmótuð ákvæði laga um endurskoðendur og ljóst að ákvörðunin gat orðið háð nokkru mati. Hefði niðurstaðan verið sú að um brot hefði verið að ræða hefði það, lögum samkvæmt, getað leitt til áminningar fyrir brot í starfi eða að lagt verið til við ráðherra að hlutaðeigandi yrði sviptur starfsréttindum sínum.

„Ber þá að líta til þess hverjar afleiðingar af niðurstöðu máls geta verið fyrir viðkomandi samkvæmt gildandi réttarreglum en ekki hverjar séu sennilegar afleiðingar að mati nefndarmanna að verði lyktir málsins á einn eða annan veg, enda er þá hætt við að afstaða nefndarmanna til hæfis síns byggi á efnislegri afstöðu þeirra til málsins,“ segir í álitinu.

Sjá einnig: Ný lög um endurskoðendur stopp í þinginu

„Þar sem nefndarmönnum var falið að skera úr þrætu nefndarmannsins og utanaðkomandi aðila þar sem gat reynt á mikilsverða hagsmuni hins fyrrnefnda verður að líta til þess hvernig það horfði við að þeir einstaklingar, sem setið höfðu með þeim sem kæran beindist að sem aðalmenn í endurskoðendaráði við úrlausn fyrri mála og ættu meðan ekki yrði breyting á skipun þeirra í ráðið að sitja áfram með viðkomandi, tækju afstöðu til þess hvort kæruefnin ættu undir ráðið. Ef sú yrði niðurstaðan varð að meta hvort og þá í hvaða mæli væri tilefni til að beita valdheimildum ráðsins í tilefni af starfi samráðsmanns þeirra sem endurskoðanda. Valdheimildum sem gátu, ef gripið yrði til þeirra, haft veruleg áhrif á starf viðkomandi á sviði endurskoðunar til framtíðar,“ segir þar enn fremur.

Var það því mat umboðsmanns að mat á hæfi aðalmanna hafi ekki verið í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga. Beinir hann þeim tilmælum til ráðsins að taka málið upp að nýju komi fram beiðni þess efnis og að taka mið af sjónarmiðum í álitinu framvegis.