Eyjólfur Örn Jónsson hefur verið ráðinn forstöðumaður verðbréfamiðlunar Íslandsbanka. Eyjólfur hefur verið forstöðumaður afleiðu- og gjaldeyrisborðs Íslandsbanka en starfaði áður við markaðsviðskipti og í fjárstýringu bankans. Hann hefur setið í stjórn ALM Verðbréfa og GAMMA.

Eyjólfur er menntaður véla- og iðnaðarverkfræðingur frá Háskóla Íslands og hefur einnig lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Verðbréfamiðlun heyrir undir Fyrirtæki og fjárfesta, nýtt svið sem þjónar bæði fjárfestum og stærri fyrirtækjum. Fyrirtæki og fjárfestar er eitt af þremur viðskiptasviðum Íslandsbanka. Vilhelm Már Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Fyrirtækja og fjárfesta, segir mikinn kraft vera í þessu nýja sviði sem hefur verið að sækja fram að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá bankanum.

„Eyjólfur tekur við verðbréfamiðlun bankans og við stefnum á enn frekari sókn á þeim markaði,“ segir Vilhelm Már. „Bankinn hefur verið með sterka hlutdeild á skuldabréfamarkaði og það eru fjölmörg tækifæri framundan á hlutabréfamarkaði. Eyjólfur þekkir bæði bankann og markaðinn vel og það verður spennandi að vinna með honum að komandi verkefnum.“