Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR ber fullt traust til Guðrúnar Johnsen til að sitja fyrir hönd félagsins í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna að því er Fréttablaðið greinir frá.
Eins og fram kom í pistli Hugins og Muninn í Viðskiptablaðinu í gær var Guðrún ein þeirra sem samþykkti 150 milljóna króna starfslokasamning Höskuldar Ólafssonar bankastjóra Arion banka þegar hún sat í stjórn bankans.
Guðrún var meðal þeirra sem stjórn VR skipaði sem aðalmenn í stjórn LV í kjölfar þess að hafa afturkallað umboð stjórnarmanna í sjóðnum eftir gagnrýni Ragnars Þórs á ákvörðun hans um að hækka vexti á lánum sjóðsins.
Fjármálaeftirlitið hefur bent á að lífeyrissjóðum sé óheimilt að ætlast til þess að lífeyrissjóðir séu nýttir í öðrum tilgangi en lögin kveða á um, sem leiddi til þess að VR lagði fram stefnu á hendur FME .
Treyst þó ekki viss um aðkomu að ákvörðuninni
Ragnar Þór segist ekki vera viss um hver aðkoma Guðrúnar hafi verið að því að því að bætt var hálfu ári við uppsagnarfrest Höskuldar en þann gjörning hefur Ragnar harðlega gagnrýnt, en segist „treysta henni fullkomlega“ til að vinna góð verk í stjórninni.
„Ein ákvörðun varðandi þessi starfskjör bankastjórans, sem ég tek fram að mér finnst algjörlega siðlaus, og ég get ekki svarað nákvæmlega hver aðkoma hennar var, breytir því ekki,“ segir Ragnar Þór sem segir það vega þyngra að hún hafi greitt atkvæði gegn sölu Arion banka á bréfum í Bakkavör og lagt til að gerð yrði könnun á söluferli bréfanna.
„[Aðkoma Guðrúnar að] rannsóknarskýrslu Alþingis geri[r] hana að mínu mati að einum hæfasta stjórnanda sem ég þekki til og myndi vilja sjá innan stjórnar lífeyrissjóðsins. Hún hefur fáheyrða innsýn inn í fjármálakerfið.“
Hér má lesa pistla um VR:
23. ágúst 2019 - Margblessuð starfslok
Hér má lesa frekari fréttir um mál VR:
- 26. júlí 2019 - VR stefnir FME
- 21. júní 2019 - FME hljóti að taka málið til skoðunar
- 20. júní 2019 - VR kaus stjórnarmenn í LV burt
- 19. júní 2019 - FME finnur að framgöngu VR
- 28. nóvember 2018 - FME svarar ummælum Ragnars