Leikfélag Reykjavíkur ses., rekstraraðili Borgarleikhússins, var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur fyrir helgi sýknað af bótakröfu fyrrverandi starfsmanns sem taldi ranglega hafa verið staðið að uppsögn sinni. Ástæðan fyrir uppsögninni hafði verið erfiður starfsandi eftir að baktal hennar um samstarfsfólk sitt fór á flakk innan leikhússins.

Umræddur starfsmaður hóf störf hjá leikhúsinu síðla sumars 2017 sem tæknimaður í ljósadeild. Í upphafi árs 2019 var henni aftur á móti sagt upp störfum með svohljóðandi skeyti: „Kæra […] mín, þú hefur staðið þig frábærlega í vinnu hjá mér, ert samviskusöm og hugsar sjálfstætt. Vandamálið mitt er tengt atvikinu síðasta vor, en útfrá því er erfitt fyrir mig að verja viðveru þína í húsinu. Ég vona að þú skiljir afstöðu mína en mér þykir miður að taka þessa ákvörðun.“

Starfsmaðurinn kom af fjöllum og virtist ekki kannast við hvaða atvik var þarna á ferð. Samkvæmt dóminum hafði hún verið skráð inn í tölvu í móttöku leikhússins og þar rætt við móður sína um samstarfsfólk sitt. Af inntaki dómsins má ráða að þar hafi hún ekki slegið þeim gullhamra. Henni hafi síðan láðst að skrá sig út úr tölvunni, skilaboðin hafi blasað við samstarfsmanni sem kom þeim í dreifingu innanhúss.

Í kjölfarið var haldinn fundur milli hennar og Borgarleikhússins hjá stéttarfélagi hennar en ekki fékkst þar botn í málið. Af þeim sökum ákvað hún að höfða málið og taldi hún sig eiga rétt á 1,5 milljón króna í skaðabætur og öðru eins í miskabætur.

Borgarleikhúsið krafðist á móti sýknu og taldi að uppsögnin hefði verið réttlætanleg. Eftir að ummælin komust í hámæli hafi vinnuumhverfið orðið spennuþrungið og nánast óstarfhæft þar á köflum. Leikhúsið sjálft hafi hvorki komið að því að taka við, varðveita eða fengið afrit af umræddum skilaboðum.

Uppsögnin ekki talin meiðandi

Leikhúsið benti á að óumdeilt væri að uppsögnin hefði verið skrifleg og henni veittur uppsagnarfrestur sem farið var fram á að hún ynni. Einnig hefði verið reynt að leita sátta en það hefði ekki gengið. Starfsmaðurinn skráði sig hins vegar af vöktum og mætti ekki frekar til vinnu. Þrátt fyrir það hafi Borgarleikhúsið ekki hýrudregið hana fyrir brotthlaupið. Hún hefði fengið greitt fyrir síðustu vaktirnar en það væri henni sjálfri að kenna að hafa misst af tekjum með því að vinna ekki uppsagnarfrestinn.

Í niðurstöðu dómsins sagði að ekki væri deilt um það að umrædd skilaboð hefðu verið meiðandi og að þau hefðu komið fyrir sjónir samstarfsfólks hennar. Uppsögnin hefði miðað að því að skapa starfsfrið þar sem ekki hefði tekist að sætta málið. Ekki væru neinar aðstæður fyrir hendi sem bentu til þess að leikhúsið hefði brotið gegn ákvæðum laga eða kjarasamninga við uppsögnina,

„[Leikhúsið] verður ekki gert ábyrgt fyrir því að hlutaðeigandi starfsmenn hafi komið kvörtunum á framfæri og málið í framhaldinu valdið skaða í samstarfi á vinnustaðnum. Dómurinn hefur skilning á því að reynt hafi verið, í nokkra mánuði, að bera klæði á vopnin þannig að komast mætti hjá frekari aðgerðum en ekki verður talið að [leikhúsið] hafi látið of langan tíma líða fram til þess að ákveðið var að höggva á hnút þessara erfiðleika með uppsögn [starfsmannsins],“ segir í niðurstöðu dómsins.

Af þeim sökum var ekki talið að uppsögnin hefði verið ólögmæt og að leikhúsið gæti borið ábyrgð á mögulegu fjártjóni starfsmannsins. Þá var heldur ekki fallist á að meðferð leikhússins hefði „verið meiðandi eða valdið [starfsmanninum] slíkum óþægindum eða skaða að jafna megi við ólögmæta meingerð.“ Bæði skaða- og miskabótakröfu var því hafnað. Málskostnaður var felldur niður milli aðila.