Gengi þriggja félaga hækkaði í viðskiptum dagsins á aðalmarkaði Kauphallarinnar. Gengi Festi hækkaði um 0,84% í 50 milljóna viðskiptum. Eik hækkaði um 0,7% í óverulegum viðskiptum. Gengi Reita hækkaði um 0,5% í 3 milljóna viðskiptum. Dagslokagengi fasteignafélagsins hefur ekki verið hærra síðan í ágústmánuði 2017.

Gengi Síldarvinnslunnar lækkaði mest allra félaga á aðalmarkaði í dag, um 3,5% í 200 milljóna viðskiptum. Tryggingafélagið VÍS lækkaði um tæp 2,9% í 150 milljóna viðskiptum.

Mest velta var með bréf Icelandair, en viðskipti með bréfin námu tæpum 600 milljónum króna. Gengi félagsins lækkaði um 3,2% í viðskiptum dagsins. Viðskipti með bréf Arion námu síðan 560 milljónum og velta með bréf Eimskips námu 500 milljónum. Heildarvelta á aðalmarkaði nam 3,2 milljörðum króna í 458 einstökum viðskiptum, en úrvalsvísitalan lækkaði um 1,5% og stendur nú í 3.249,16 stigum.

Á First North markaðnum lækkaði Play um tæp 2% í 16 milljóna viðskiptum. Solid Clouds hækkaði um tæp 4% í 24 þúsund króna viðskiptum og Hampiðjan lækkaði um 1,5% í 200 þúsund króna viðskiptum. Kaldalón hækkaði um rúmlega eitt prósent í milljón króna viðskiptum.