Fasteignafélagið Reitir skilaði 7,6 milljarða króna hagnaði á síðasta ári, samanborið við tæplega tveggja milljarða hagnað árið 2020. Líkt og hjá öðrum fasteignafélaginu er helsta breytingin á milli ára matsbreyting fjárfestingaeigna sem var jákvæð um 8,7 milljarða hjá Reitum árið 2021 en jákvæð um 2,2 milljarða árið áður. Arðsemi eiginfjár nam 13,8% á árinu. Reitir birtu ársuppgjör eftir lokun markaða í dag.

Stjórn félagsins leggur til að greiddar verða 1,73 krónur á hlut í arð, eða sem nemur 1,3 milljörðum króna, vegna rekstrarársins 2021.

Í fjárfestakynningu með uppgjörinu er bent á að á síðasta ári skilaði félagið mesta rekstrarhagnaði og var með hæstu leigutekjur á einu ári í sögu Reita. Leigutekjur jukust um 11% á milli ára og námu 11,9 milljörðum. Hreinar leigutekjur jukust um 14% og námu 8,4 milljörðum. Tekjuvegið nýtingarhlutfall fasteignasafnsins jókst úr 94,8% í 95,1% á milli ára.

Þá nam rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu 7.744 milljónum í fyrra samanborið við 6.751 milljón árið 2020 og 7.672 milljónir árið 2019.

„Uppgjör ársins ber með sér batnandi horfur, rekstur Reita leitar í hagfelldan hefðbundinn farveg með minnkandi áhrifum faraldursins,“ segir Guðjón Auðunsson , forstjóri Reita, í tilkynningu .

„Góður gangur var í útleigu á árinu 2021 og nýting fasteigna félagsins batnaði milli ára. Efnahagsleg áhrif heimsfaraldursins eru sýnileg í rekstrarniðurstöðu ársins en vonir standa til þess að þau verði hverfandi á árinu 2022.“

Reitir áætla að leigutekjur aukist um allt að 10% í ár og verði á bilinu 12.750-13.000 milljónir króna. Áætlaður rekstrarhagnaður fyrir afskriftir í ár verður á bilinu 8.500-8.750 milljónir, eða allt að 13% hærri en í fyrra.

Eignir Reita námu 171 milljarði í árslok 2021, samanborið við 156 milljarða árið áður. Eigið fé jókst úr 52,8 milljörðum í 58,7 milljarða og skuldir jukust úrr 103,6 milljörðum í 112,4 milljarða. Eiginfjárhlutfall félagsins fór því úr 33,8% í 34,3% á milli ára.

Sjö milljarða fjárfesting

Reitir fjárfestu á síðasta ári fyrir um 7 milljarða í nýjum eignum og endurbótum innan eignasafnsins. Stærstu kaupin voru þrír verslunarkjarnar, þar sem Krónan er stærsti leigutakinn, sem keyptir voru af Festi og bættust í rekstur eignasafnsins þann 1. nóvember. Heildarvirði kaupanna voru 3.286 milljónir.

Haft er eftir Guðjóni að Reitir líta svo á að þróunarverkefni félagsins, sem standa að baki um 6% hluta eignasafnsins, muni gegna mikilvægu hlutverki í verðmætasköpun næstu ára.

Sjá einnig: „Þetta er risavaxið verkefni“

Á Kringlusvæðinu vinna Reitir að þróun borgarkjarna með alls um 1.000 íbúðum á um 13 hektara svæði. Í tilkynningu Reita kemur fram að uppfært aðalskipulag Reykjavíkur sem tók gildi í ársbyrjun 2022 opnar fyrir skipulagsbreytingar sem fasteignafélagið hafi unnið að undanfarin ár. Deiliskipulag fyrsta áfanga, sem nær til suðvesturhluta svæðisins, er í undirbúningi en þar er gert ráð fyrir rúmlega 50 þúsund fermetra byggð með um 350 íbúðum.

Viðskiptablaðið sagði einnig frá breytingum sem Reitir eru með til skoðunar á Loftleiðareitnum, þar á meðal þrír nýir byggingarreitir. Þá hyggist félagið breyta Suðurlandsbraut 56, þar sem Metro hamborgarastaðurinn er nú til húsa og McDonalds var á árum áður, í íbúðablokk og atvinnuhúsnæði. Stefnt er að því að íbúðirnar verða 87 talsins og að atvinnurýmið verði um 1.200 fermetrar.

Í haust náðu Reitir samkomulagi við Íslenskar fasteignir um sölu nýbyggingarheimilda á Orkureit fyrir 3.830 milljónir króna en áætlað er að hagnaður af sölunni verði um 1.300 milljónir.