Augnskimanir fyrir skjólstæðinga Landspítalans með sykursýki verða framvegis byggðar á byltingarkenndri tækninni RetinaRisk sem er þróuð af sprotafyrirtækinu Risk ehf.

Tæknin metur nákvæmlega líkurnar á sjónskerðandi augnbotnasjúkdómum hjá fólki með sykursýki og tryggir að fólk með aukna áhættu fái meiri eftirfylgni til þess að koma megi í veg fyrir sjónskerðingu og jafnvel blindu.

RetinaRisk stýrir þannig fjölda augnskimana fyrir hvern skjólstæðing spítalans sem er með sykursýki, byggt á einstaklingsbundinni þörf en ekki hópnálgun, eins og verið hefur fram að þessu. Þessi nálgun tryggir að allir fái þá heilbrigðisþjónustu sem þau þurfa, byggt á nákvæmu áhættumati og einstaklingsmiðaðri þörf hvers einstaklings.

Sjá einnig: Koma í veg fyrir sjónskerðingu

Í fréttatilkynningu segir að samstarf Landspítala og Risk hafi vakið mikla athygli og fjölmargir aðilar erlendis hafi sýnt lausninni mikinn áhuga. Innleiðing tækninnar stendur yfir í nokkrum löndum.

Landspítalinn og RetinaRisk hafa starfað náið saman undanfarin tvö ár við innleiðingu RetinaRisk hugbúnaðarins í tölvukerfi Landspítala en einnig lagt grunn að vísindasamstarfi sem mun viðhalda þeirri leiðandi stöðu sem íslenskt hugvit hefur í þróun nýrra aðferða við augnskimun fólks með sykursýki.

Að sögn Birkis Friðfinnssonar, þjónustustjóra skimana á Landspítalanum, forgangsraðar RetinaRisk innan sjúklingahópsins og eykur þjónustu til fólks í hærri áhættu á sjónskerðandi augnbotnabreytingum samhliða að fólki í lítilli áhættu kemst hjá óþarfa heimsóknum.

„Með innleiðingunni verður nú hægt að fjölga þeim sem fá augnskimun á Landspítalanum um allt að 60% án fjárfestinga í tækjabúnaði eða fjölgun starfsfólks. Þessi aukning í skilvirkni næst með að meta nákvæmlega þörf hvers og eins skjólstæðings á augnskimun og haga framboði eftir því,” segir Birkir.

Viðskiptablaðið fjallaði nýlega um Risk sem var stofnað af Einari Stefánssyni augnlækni, Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði, og Örnu Guðmundsdóttur innkirtlalækni. Fyrirtækið vonast til að nýtt samstarf við Bandarísku sykursýkisamtökin opni dyr inn á bandaríska markaðinn. Risk á nú í viðræðum um nýtt fjármagn og áætlað er að fjármögnunarlotunni ljúki í sumar.