Ríkið hyggst kaupa 6.500 fermetra af nýja Landsbankahúsinu. Þetta kemur fram í skriflegu svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurn Viðskiptablaðsins.

Byggingin við Austurbakka verður alls um 16.500 fermetrar. Til stóð að Landsbankinn myndi leigja eða selja út 6.500 fermetra í húsinu. Nú liggur fyrir að ríkið stefnir á að kaupa alla fermetra húsnæðisins sem stóð til að selja eða leigja út.

Í svörum forsætisráðuneytisins segir að ríkið ætli að hefja formlegar samningaviðræður á næstu vikum eða mánuðum. Í frétt Stjórnarráðsins segir að um sé að ræða nútímalegt og sveigjanlegt skrifstofuhúsnæði sem hægt er að sérsníða að þörfum Stjórnarráðsins innan skamms tíma og því um álitlegan kost að ræða.

Sjá einnig: Ríkið kaupi í höfuðstöðvum Landsbankans

Hluti Landsbankahússins við Austurbakka, sem ríkið hyggst kaupa, heitir norðurhús. Um er að ræða tvo misháa húshluta, austan við Hótel Marriott Edition og sunnan við Hörpu. Landsbankinn mun nýta 10 þúsund fermetra sem skiptist í tvo húshluta næst Geirsgötu.

Heildarkostnaður byggingarinnar nemur um 12 milljörðum króna, en áður hafði verið stefnt að 9 milljarða króna kostnaði.